Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún sagði að ekki væri öruggt að fimmtudagurinn verði stór dagur, það velti á hvort stór sending, sem von er á, verði komin.
Hún sagði að um 9.000 skammtar séu til fyrir hvern þessara daga.
Þegar lokið verður við bólusetningar þeirra sem eru boðaðir til þeirra verður opið hús þar sem sprautað verður með afgangsskömmtum. Næsta vika verður síðan síðasta vikan þar sem megináherslan verður á að gefa fyrsta skammt bóluefnanna. Eftir það verði áhersla lögð á að gefa seinni skammtinn. „Svo förum við að snúa okkur að öðrum hópum, til dæmis fólki sem býr á landinu en er ekki með kennitölu og fólki sem þegar er með mótefni,“ er haft eftir Ragnheiði.
239.000 manns hafa verið bólusettir hér á landi fram að þessu. Af þeim hafa 153.800 lokið bólusetningu.
Ragnheiður sagðist telja að Íslendingar hafi staðið sig vel í bólusetningarátakinu miðað við aðrar þjóðir. Hún sagði þetta meðal annars skýrast af sterkri menningu fyrir bólusetningum hér á landi.
„Ég held að flestir Íslendingar séu mjög jákvæðir fyrir bólusetningum. Hlutföll á bólusetningum barna eru yfirleitt á bilinu 90 til 95 prósent. Það er lítið um að fólk sé að hafna Covid-sprautunum eða tilkynna að það sé hrætt við þær, þótt það séu kannski einstaka háværar gagnrýnisraddir,“ sagði hún.