Konan sem féll í skriðu í Flekkudal í Hvalfirði síðastliðið þriðjudagskvöld lést á gjörgæsludeild Landsspítalans í Fossvogi í morgun. Hún hét Sólveig Katrín Hallgrímsdóttir og var fædd árið 1977.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ættingjum hennar. Þar segir ennfremur:
„Sólveig, sem lætur eftir sig einn son, var viðskiptafræðingur frá Bifröst, og var mikil útivistarmanneskja. Hún vann ötullega að því markmiði sínu að skoða og heimsækja alla fossa landsins. Þegar slysið varð átti hún 75 fossa að baki. Fjölskylda Sólveigar vill koma á framfæri þakklæti til Landhelgisgæslunnar auk hjúkrunar- umönnunar- og sálgæslufólks sem lagði sig fram við mjög krefjandi aðstæður.
Sólveig var hraust manneskja og með líffæragjöf mun sú hreysti hennar færa nokkrum manneskjum betra líf. Læknateymi er væntanlegt utan úr heimi í dag og einhvers staðar bíður fólk fullt nýrrar vonar um nýtt og betra líf.“
DV sendir öllum aðstandenum Sólveigar innilegar samúðarkveðjur.