Síðdegis í gær fór maður inn á heimili í Kópavogi og tók burtu með sér hund sem hann sagðist eiga. Var þetta tilkynnt til lögreglu. Segja þeir sem búa á heimilinu að það sé ekki rétt að sá sem tók hundinn eigi hann.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Maðurinn sem nam hundinn burt er nú grunaður um húsbrot, þjófnað og líkamsárás. Segir í dagbókinni að börn á heimilinu hafi orðið skelkuð við aðfarir mannsins.
Í dagbókinni segir einnig frá því að kviknaði hafi í þremur bifhjólum við fjölbýlishús í Efra-Breiðholti. Varð töluvert tjón af eldinum og er málið í rannsókn.
Ennfremur kom upp eldur við skóla í Efra-Breiðholti en ekki urðu miklar skemmdir.
Upp úr klukkan átta í gærkvöld fékk lögreglan tilkynningu um konu sem virtist sitja föst í fatasöfnunargámi í Neðra-Breiðholti en henni tókst að losa sig af sjálfsdáðum.