Silja Ragnarsdóttir upplifði það í nótt sem enginn vill upplifa: Hún var vakin upp af dóttur sinni með þau skilaboð að búið væri að kveikja í bíl þeirra fyrir utan hús þeirra í Árbænum.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum neðst í fréttinni var dóttir hennar ekki að ýkja.
Silja lýsir því í færslu á Twitter þegar hún stökk af stað og varð þá var við logandi bílinn úti á bílastæði. „Hver gerir svona? Hver ákveður að kveikja í random bíl af því að?? Er svo sár, leið í sjokki og reið!“ skrifar Silja á Twitter.
Í samtali við DV segir Silja að atvikið hafi átt sér stað um tvö í nótt og að hún hafi verið nýsofnuð þegar hún var vakin af dóttur sinni með skilaboðin.
Silja segist eiga erfitt með að trúa að þessu hafi verið beint að sér persónulega. „Lögreglan spurði mig í nótt hvort þetta gæti verið eitthvað persónulegt. Hvort ég ætti einhvern fyrrverandi kærasta eða eitthvað svoleiðis. En nei, það er ekkert svoleiðis,“ segir hún við DV. Silja sagðist ekki getað tjáð sig um rannsókn málsins sem sé nú í höndum lögreglu.
Hún segir hins vegar ljóst að um íkveikju að ræða. „Það tók enga stund fyrir slökkviliðið að komast að þeirri niðurstöðu. Þeir sögðu strax að þetta væri íkveikja,“ segir Silja. „Maður sér það þegar maður skoðar bílinn. Þá sést hvernig einhver hefur hellt íkveikjuvökva yfir húdd bílsins og svo hefur vökvinn lekið niður að aftan. Þannig að þetta er klárlega íkveikja.“
Silja segir dóttur sína hafa staðið sig eins og hetju og er bersýnilega stolt af stelpunni sinni fyrir frammistöðu sína í nótt. „Hún kom bara inn til mín og kallaði: „Mamma það er búið að kveikja í bílnum.“ Ég var nýsofnuð sjálf og ég meina, hver býst við þessu! Auðvitað er maður bara fyrst: „Um hvað ertu að tala.“ Svo stökk ég út í glugga og þá var bíllinn logandi.“
Þegar eldurinn hafi svo læst sig í framdekki bílsins hafi það sprungið og hvellurinn ómað um allt hverfið. Silja segist hafa hringt undir eins á Neyðarlínuna og slökkviliðið hafi verið mætt á örskotsstundu. „Þeir voru ótrúlega snöggir hingað.“
Hún segir jafnframt að lítið hafi verið um muni í bílnum. „Aðaldæmið þar er kannski bílstóll yngri dóttur minnar, og eitthvað svoleiðis. Svo einhver sólgleraugu sem ég átti.“ Silja vill samt ekki gera mikið úr fjárhagslegu tjóni af völdum brunans. Nú taki við símtal í tryggingafélagið hennar. En fyrst, segir hún, ætlar hún að leggja sig enda hafi nóttin farið í þetta.
„Vonandi eftir nokkur ár getur maður sagt hlægjandi frá því hvernig ég brást við þegar dóttir mín kom hlaupandi inn til mín og sagði mér að það væri búið að kveikja í bílnum okkar,“ segir Silja sem kann greinilega að líta á björtu hliðarnar í lífinu.
„Eins sárt og þetta er, þá eru þetta bara veraldlegir hlutir,“ segir hún að lokum.