Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Hefur blaðið eftir Tómasi J. Gestssyni, framkvæmdastjóra Heimsferða, að eftirspurnin eftir ferðum til Tenerife um jólin hafi komið á óvart. „Við fylltum strax tvær vélar og erum búin að bæta við þremur og þær eru langt komnar,“ er haft eftir honum.
Þráinn Vigfússon, hjá VITA, tók í sama streng og sagði að uppselt hafi verið í jólaferðina og hafi aukaferð verið bætt við og sé við að verða uppselt í hana.
Play ætlar að flytja landsmenn til Tenerife um jólin og sagðist Birgir Jónsson, forstjóri félagsins, vera upp með sér yfir að Íslendingar treysti nýjasta ferðafélagi landsins fyrir jólaferðum sínum. „Íslendingar eru greinilega mjög sólarþyrstir því það er mikið keypt af ferðum til Tenerife í kringum jólin og næstu páska. Það er jákvætt fyrir okkur því við erum ný á markaðnum, að fólk er að treysta okkur fyrir svona mikilvægum ferðum með stórfjölskyldunni. Við erum stolt af því og tökum því alvarlega,“ er haft eftir honum. Hann sagðist jafnframt eiga von á að aukaferðum verði bætt við miðað við þá eftirspurn sem verið hefur.
Birna Ósk Einarsdóttir, hjá sölu- og þjónustusviði Icelandair, sagði að ferðaáhugi hafi aukist mikið síðustu daga, vel sé bókað inn í haustið og veturinn. „Við sjáum að með auknum bólusetningum í heiminum og fækkandi smitum hafa Íslendingar verið mjög fljótir að taka við sér,“ er haft eftir henni.