Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður sæti farbanni til 1. október á þessu ári. Kemur þar fram að hann sé ákærður fyrir aðild að morðinu á Armando Beqirai sem myrtur var 13. febrúar s.l. fyrir utan heimili sitt við Rauðagerði í Reykjavík.
Angjelin Sterkaj hefur játað á sig morðið og sagði við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðasta mánuði að hann hefði verið einn að verki. Engu að síður eru fjórir ákærðir fyrir aðild að morðinu.
Maðurinn sem hér um ræðir er í ákærunni sagður hafa beðið með Angjelin í bíl sem hann ók í Rauðagerði og þegar Armando kom heim, sett Angjelin úr bíl sínum fyrir framan heimili Armando. Þá hafi hann tekið Angjelin aftur upp í bílinn og ekið í framhaldi út úr bænum með viðkomu í Kollafirði þar sem Angjelin kastaði byssunni út í sjó.
Í kröfu Héraðssaksóknara er það tekið fram að maðurinn sé erlendur ríkisborgari og að ákæruvaldið telji mikla hættu á því að maðurinn reyni að koma sér úr landi til að koma sér undan málsókn eða fullnustu refsingar, sæti hann ekki farbanni, að því er segir í úrskurði Héraðsdóms sem Landsréttur staðfesti.
Þar kemur jafnframt fram að maðurinn hafi til 3. júní afplánað dóm vegna annars máls. Hann losnaði úr fangelsi 3. júní kl 8:00, og er nú frjáls ferða sinna á Íslandi, en má ekki fara úr landi.