Kristín Johansen er móðir barna í Flataskóla í Garðabæ en þar var á dögunum níu ára börnum sýnd mynd sem fjallar um sögu og mikilvægi bólusetninga fyrir börn. Myndin er sýnd sem hluti af verkefni með UNICEF en fræða á börnin um réttindi þeirra samkvæmt Barnasáttmála UNICEF.
Ævar Þór Benediktsson, einnig þekktur sem Ævar vísindamaður, og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir eru meðal þeirra sem fjalla um bólusetningar fyrir börnin í verkefninu.
„Þetta vil ég gagnrýna. Ég set spurningarmerki við gagnsemi þess að sýna níu ára krökkum upplýsingamyndbönd um bólusetningar þar sem þau hafa ekki forsendur til að kynna sér málið frá öðrum hliðum. Það eru vaxandi áhyggjur um tilgang og gagnsemi bólusetninga og ekki síst í dag þegar við horfum upp á að gripið hefur verið til þess ráðs að reyna mRNA-líftæknimeðferð fyrir sem flesta við veiru sem vegur ekki fleiri en flensa hefur gert í gegnum tíðina,“ skrifar Kristín í Morgunblaðið. „Jafnvel hefur maður heyrt að standi til að sprauta börn „fyrir“ þessum vírus sem snertir þau ekki og telja verður í besta falli vafasamt.“
Kristín spyr hvort tímasetningin á þessu myndbandi sé kannski ekki tilviljun. Hún bendir á að það er í höndum foreldra og aðstandenda að taka ákvarðanir fyrir börnin um þau mál sem tengjast heilsu og segir að með inngripi af þessu tagi sé hætta á einhliða umfjöllun og einhliða umræðu um mikilvægt málefni.
„Hafið þið skoðað hvort um hræðsluáróður sé að ræða í myndbandinu? Er talað þar um að börn geti dáið ef þau fá ekki bólusetningu? Hver er tilgangurinn með því? Ég frábið mér því að dóttur minni verði sagt beint eða óbeint að hún geti dáið ef hún fái ekki bólusetningar. Ég kæri mig ekki um að greypa það viðhorf í hana,“ segir Kristín.
Hún vill meina að það sé annað að hvetja börn til hreyfingar og útvistar en annað að fjalla einhliða um nauðsyn bóluefna. Það sé meira áróður en fræðsla.
„Ég hvet ykkur því til að endurskoða þá ákvörðun að leyfa sýningu slíks einhliða myndbands fyrir börn sem hafa ekki nægan skilning á málefninu,“ segir Kristín að lokum.