„Þegar faraldurinn skall á fyrir rúmu ári síðan þurftum við að ráðast í sársaukafullar aðgerðir til þess að verja störf til lengri tíma litið. Það er því mjög ánægjulegt að horfa nú til bjartari tíma og hefja ráðningar á ný,“ er haft eftir henni.
Aðspurð sagði hún að flest störfin séu framleiðslutengd flugstörf, þar á meðal flugáhafnir og störf í flugafgreiðslunni á Keflavíkurflugvelli.
Þegar umsvif Icelandair Group voru í lágmarki í janúar voru starfsmenn samstæðunnar um 1.500 og stöðugildin tæplega 1.300. Félagið hóf markaðssetningarherferð í Bandaríkjunum þegar opnað var fyrir ferðalög bólusettra Bandaríkjamanna og hefur hún skilað sér í aukinni sölu.
Elísabet sagði félagið vera í sóknarhug og vísaði þar til þess að flugferðum á vegum félagsins fjölgar í hverri viku. „Í þessari viku eru brottfarir í millilandaflugi frá Keflavík um 50 og við sjáum fyrir okkur að vera komin upp í 100 brottfarir á viku fyrir lok júní að öllu óbreyttu,“ sagði hún.