Undanfarið hefur leikkonan og áhrifavaldurinn Kristín Pétursdóttir verið umfjöllunarefni í færslum þekktra kvenna á samfélagsmiðlum og hún sökuð um ofbeldi. Hún hefur ekki verið nafngreind í þessum færslum en það staðfestist í dag að hún er sú kona er um ræðir.
„Mér finnst èg í svo skrýtinni aðstöðu að þurfa útskýra ofbeldi fyrir konum því sú sem beitti því er svo “góð kona” þetta tengist því bara andskotanum ekkert. Lærðum við ekkert af nýlegasta máli manns í fjölmiðlum sem beitti ofbeldi?!“ tísti Sigga Dögg kynfræðingur á Twitter í fyrradag. Hér var hún að ræða um Kristínu.
Edda Falak, hinn þekkti áhrifavaldur og einkaþjálfari, sem var í forystu Metoo-umræðunnar í maí, í kjölfar ásakana á hendur Sölva Tryggvasyni, endutísti þessum ummælum Siggu Daggar.
Nokkru áður skrifaði Edda Falak um Kristínu:
„Manneskja gerir líf mitt óbærilegt í nokkra mánuði. Hún mun sennilega neita fyrir það og trúverðugleiki minn sem þolandi sennilega lítill þar sem litapallettan hennar á insta er on point.“
Edda sagði ennfremur:
„Konur eru alltaf tilbúnar að styðja þig þegar þú outar karlkyns ofbeldismann en ekki þegar þú outar kvenkyns ofbeldismann – þá áttu bara að vera konum eru konum bestar og þegja.“
Edda og barnsfaðir Kristínar tóku saman og urðu deilur á milli kvennanna tveggja í kjölfarið. Kristín segir að það hafi verið vegna þess að hún var ósátt við að Edda væri að birta myndir af barninu hennar. Edda segir að Kristín hafi verið afbrýðisöm út í sig og hafi reynt að beita á sig vúdú-galdri, þ.e. gert dúkku í eftirmynd af sér og stungið í dúkkuna. Þetta segir Kristín vera fráleitt.
Kristín telur að Edda sé að nota persónulega óvild í sinn garð til að tengja hana inn í Metoo-umræðu og það sé út í hött.
Ástæðan fyrir því að Sigga Dögg kynfræðingur dregur Kristínu inn í Metoo-tengda umræðu er atvik sem DV fjallaði ítarlega um í dag er upp úr sauð vegna samkvæmishávaða frá vinnustofu Péturs Gauts listmálara, föður Kristínar, þar sem feðginin voru bæði ásamt fleira fólki. Til átaka kom og Sigga segir að systir sín hafi verið beitt þarna andlegu og líkamlegu ofbeldi. Bæði Pétur Gautur og Kristín þverneita því að hafa beitt ofbeldi.
Sigga Dögg skrifaði eftirfarandi tíst um atvikið:
„Ok svo skilaboðin hætti. Svona standa málin. Ég var vakin um miðja nótt fyrir nokkrum vikum til að sækja systur mína sem varð fyrir líkamsárás af hendur mjög þekktra einstaklinga í okkar samfélagi. Ekki bara leiðindi. Árás, líkamleg og andleg.
Og það eru vitni. Þetta var ekki misskilningur eða túlkun eða huglæg upplifun. Það þurfti að kalla til lögreglu.“
Kristínu finnst fráleitt að nota nágrannaerjur af þessu tagi til að klína á hana Metoo-stimpli en Sigga Dögg hikar ekki við að halda áfram með slíka orðræðu. Hún var mjög ósátt við viðbrögð Kristínar og Péturs Gauts við ásökunum hennar, eins og þau birtust í frétt DV, og brást við því með nokkrum myndbandsræðum.
Sigga Dögg segir þar meðal annars – og orðræðan er klárlega í anda MeToo:
„Nú langar mig að spyrja: Við erum í þessari öldu hérna. Ætlum við að trúa þeim sem beita ofbeldinu eða þeim sem verða fyrir ofbeldinu. Hvað raunverulega er að gerast hérna? Þannig að fólk sem er sauðdrukkið um miðja nótt í bara „smá gleðskap í miðbænum“ og beitir annað fólk ofbeldi sem er edrú að reyna að sofa því það þarf að mæta til fokking vinnu daginn eftir, það fólk er beitt ofbeldi, þorir varla segja frá því af því þetta er þekkt fólk en segir svo frá því. Og þekkta fólkið sem hefur platform, hefur áhrif, hefur rödd og hefur tækifæri, neitar öllu. Má ég spyrja: Það er árið fokking 2021 á hvaða fokking rödd ætlið þið að hlusta? Mér er svo gjörsamlega misboðið. Þetta er ekki í boði.“