Löng biðröð hefur verið í dag eftir bólusetningu í Laugardalshöllinni í Reykjavík þar sem fólk fékk Pfizer-bóluetnið. Reiknað er með því að bólusetningar á landsvísu fari yfir 200 þúsunda markið í vikunni.
Fimm manns voru greindir innanlands með COVID-19, þar af einn utan sóttkvíar.
Boðanir í handhófskenndar bólusetningar á höfuðborgarsvæðinu hófust fyrr í dag eftir að fyrstu árgangarnir voru dregnir úr lítilli fötu. Alls verður dregið úr sextíu hópum, þrjátíu árgöngum sem sem er skipt í hópa eftir konum og körlum.
Konur fæddar 1982 og karlar fæddir 1999 komu upp í drættinum sem fram fór í Laugardalshöllinni í dag og hefur þetta fólk væntanlega þegar fengið sms í gegn um Heilsuveru með boði í Pfizer-sprautu. Næstu daga og vikur verður haldið áfram að draga árganga af handahófi úr fötunni.