Maður sem fór inn í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu haustið 2019 og var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn þremur nemendum í skólanum var sakfelldur fyrir eitt brotið og dæmdur í níu mánaða fangelsi, en dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Ákæruliðirnir þrír gegn manninum eru svohljóðandi:
„1. A, kt. […], sem þá var 9 ára gömul, en ákærði lokkaði hana upp á rishæð skólans þar sem ákærði kleip hana í rassinn og strauk læri hennar og kynfæri utanklæða.
2. B, kt. […], sem þá var 14 ára gamall, en ákærði sló hann á rassinn.
3. C, kt. […], sem þá var 15 ára gömul, en ákærði settist á bekk sem C sat á og færði sig nær stúlkunni þegar hún reyndi að komast undan honum, setti hendi á annað
læri stúlkunnar og elti stúlkuna þegar hún stóð upp þar til hún fór til hóps af drengjum.“
Dómara þótti aðeins fullsannað að maðurinn hefði brotið gegn 9 ára stúlkunni sem kveðið er á um í fyrsta lið ákærunnar og var maðurinn fundinn sekur um það brot. Ósannað þótti að hann hefði framið hin brotin tvö.
Hann var dæmdur í níu mánaða fangelsi og til að greiða stúlkunni 500 þúsund krónur í miskabætur.