Einkamálið sem Akureyrarkirkja hefur undanfarin misseri rekið gegn manni á Akureyri sem áður var metinn ósakhæfur í sakamáli er varðaði sama atvik, skemmdarverk á Akureyrarkirkju sem unnin voru í janúar 2017, hefur nú verið fellt niður.
DV sagði frá því í morgun að kirkjan hefði krafið manninn um 20 milljónir í bætur vegna athæfisins. Maðurinn hefur, samkvæmt heimildum DV, glímt við erfið andleg veikindi. Þá missti maðurinn jafnframt foreldra sína og bróður í flugslysi 2019. Einkamálið var höfðað eftir andlát fjölskyldu mannsins.
Sóknarnefnd Akureyrarkirkju tók ákvörðun um að höfða málið og var formaður sóknarnefndarinnar ráðinn lögmaður kirkjunnar í málinu. Sá sami sóknarnefndarformaður kom einnig fram fyrir hönd kirkjunnar í fjölmiðlum í kjölfar skemmdarverkanna 2017. Í samtali DV við Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprest, staðfesti hann að prestar kirkjunnar hefðu verið hafðir með í ráðum við ákvörðun um málaferlin.
Í samtali við DV sagði Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndarinnar að nefndin fundi reglulega og að hún hafi falið sér að reka þetta mál. „Ég hefði ekki rekið þetta mál nema af því að það var niðurstaða sóknarnefndarinnar að fela mér það,“ sagði Ólafur. Aðspurður hvort ekki hefði verið heppilegra að fela utanaðkomandi lögmanni rekstur málsins, í ljósi tengsla sinna við atvik málsins og sóknarnefndina, enda liti það óhjákvæmilega út eins og hann hafi ráðið sjálfan sig í vinnu segir Ólafur svo ekki vera. „Það var okkar mat, eins og þetta mál var vaxið að það væri ekki þess eðlis að leita þyrfti annað.“
DV bar jafnframt undir Ólaf sögusagnir sem hafa gengið manna á milli í bænum að kirkjan hafi ákveðið að höfða málið í kjölfar andláts foreldra mannsins og bróður, enda hafi hann þá orðið borgunarmaður fyrir bótagreiðslu. „Ég skil að þetta gæti litið út þannig, en það var ekki þannig. Þegar við tökum ákvörðun um að fara af stað með þetta mál, þá bara vissum við bara ekkert um það,“ segir Ólafur. „Á þessum tíma vorum við einfaldlega að klára framkvæmdirnar, svona að mestu leiti, þegar við byrjum að vinna í málinu. Það var haustið 2020. Stóru framkvæmdinni við klæðningu kirkjunnar, henni lauk þá og reikningarnir voru komnir í hús svona um október 2020 og þá var strax farið að hefja undirbúning málaferlanna.“
Kostnaður við viðgerðirnar voru samtals 20 milljónir króna og var það aðalkrafa Akureyrarkirkju að maðurinn greiddi það að fullu. Varakrafa kirkjunnar var að hann greiddi 12 milljónir, enda hefði kirkjan aflað sér 8 milljóna í styrki til viðgerða á kirkjunni með öðrum leiðum.
Málið var svo, líkt og DV greindi frá í morgun, tekið fyrir klukkan 10:45 í Héraðsdómi Norðurlands eystra þar sem sóknarnefnd féll frá málinu formlega. Í tilkynningu frá sóknarnefndinni sem barst DV nú rétt í þessu segir að málinu sé nú að fullu lokið.
„Í kjölfar fréttaflutnings af dómsmálinu hafði margt gott fólk samband við sóknarnefnd og lýsti vilja til að leggja henni lið ef hægt væri að finna aðrar leiðir til að mæta kostnaði við lagfæringu vegna skemmdanna. Úrbótakostnaður varð umtalsvert hærri en styrir sem fengust til framkvæmdarinnar,“ segir í tilkynningunni. „Sóknarnefnd hefur fengið til liðs við sig hóp valinkunnra einstaklinga sem hafa tekið að sér að stýra fjáröflun sem hefur það að markmiði að sóknarnefnd geti mætt verkefni sínu með liðsinni hollvina kirkjunnar.“