Tíst sem Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur – Sigga Dögg – birti í gær hefur vakið gríðarlega athygli, en þar sakar hún landsþekkt fólk um ofbeldi gegn systur sinni. Sigga Dögg skrifaði:
„Ok svo skilaboðin hætti. Svona standa málin. Ég var vakin um miðja nótt fyrir nokkrum vikum til að sækja systur mína sem varð fyrir líkamsárás af hendur mjög þekktra einstaklinga í okkar samfélagi. Ekki bara leiðindi. Árás, líkamleg og andleg.
Og það eru vitni. Þetta var ekki misskilningur eða túlkun eða huglæg upplifun. Það þurfti að kalla til lögreglu.“
DV hafði samband við Siggu Dögg vegna málsins og upplýsir hún að aðdragandi þess séu hávaðakvartanir. Sigga vildi ekki upplýsa hvaða fólk ætti í hlut en DV komst að því eftir öðrum leiðum að um er að ræða hinn landsþekkta listmálara Pétur Gaut og dóttur hans, áhrifavaldinn og leikkonuna, Kristínu Pétursdóttur.
Sigga Dögg segir að systir hennar hafi kvartað undan miklum tónlistarhávaða í vinnuhúsnæði listamannsins í miðbænum en þau feðgin hafi mætt henni með ofbeldi. Áttu sér stað hávær orðaskipti og samkvæmt Siggu Dögg voru lagðar hendur á systur hennar.
„Einni manneskju verður birt ákæra í málinu og aðkoma annarrar er bókuð hjá lögreglu,“ sagði Sigga Dögg er DV spurði hana hvar þetta mál stæði í kerfinu. Segir hún að nágrannar Péturs séu langþreyttir á sífelldum tónlistarhávaða og veisluglaumi frá vinnustofu hans. „Það er margoft búið að kvarta undan hávaða og þegar systir mín kvartar þá er brugðist svona við, hann ræðst á hana,“ segir Sigga Dögg.
Þess má geta að DV hefur fengið staðfest að kæra hafði verið lögð fram hjá lögreglu vegna málsins. Var sú kæra lögð fram í apríl.
„Fólki er svo misboðið, hann hækkar í tónlistinni um leið og lögreglan fer burtu öllum í þessari götu er í raun haldið í gíslingu af þessu fólki,“ segir Sigga Dögg.
DV hafði samband við Pétur Gaut vegna málsins og segir hann þær ásakanir að hann hafi beitt ofbeldi vera gjörsamlega fráleitar. Pétur Gautur segir að umrætt atvik hafi átt sér stað fyrir tveimur til þremur mánuðum og honum þykir undarlegt að verið sé að æsa upp samfélagsmiðlastorm vegna þess núna:
„Sannleikurinn er þessi: Ég er með vinnustofu á Njálsgötu og það var gleði þar í gangi, allt í einu bankar einhver bylmingshögg á hurðina hjá mér og öskrar: Ég hata þennan helvítis kall! Konan talaði hátt og mikið, löggan kom og bað okkur að lækka sem við gerðum. Þetta var einhvern tíma í vetur, en núna er komið sumar og allt í einu er þetta orðið að umfjöllunarefni á samfélagsmiðlum, þar sem þessi umtalaða kona og systir hennar saka mig um ofbeldi. Þær kasta fram einhliða upphrópunum og kveða upp dóma yfir saklausu fólki.“
Pétur Gautur segir að ummæli um hann og dóttur hans í þessu máli séu ærumeiðandi:
„Þetta eru ekkert nema ærumeiðandi ummæli sem fram fara á samfélgasmiðlum þar sem þessar konur nafngreina saklaust fólk og kalla það ofbeldismenn. Túlkun mín á því hvað kallast megi ofbeldi er alls ekki í samræmi við það sem þessar systur halda fram, enda var þessi Sigga Dögg alls ekki á staðnum og getur tæplega lagt mat á það sem þarna gerðist. Þessi unga kona sýndi ofsafengna, dramatíska hegðun sem var í engu samræmi við tilefnið. Dóttir mín hefur óskað eftir því að fá að tala við hana, en hún hafnaði því alfarið.“
Pétur Gautur segist jafnframt hafna öllu ofbeldi:
„Ofbeldi er með öllu ólíðandi og ég er ekki talsmaður þess af neinu tagi, en þegar nafn manns er bendlað við slíkt getur maður ekki annað en risið upp á afturfæturna og mótmælt. Mér þykir þetta innlegg þessara kvenna í umræðuna um ofbeldi vera rætið og rýrt. Þessi maður sem var með barefli þarna var á ferð á sama tíma er ekkert tengdur mér, ég veit ekkert hvaða maður þetta var og hef aldrei séð hann. Það skal því ítrekað hér að þetta var ekki ég.“
Pétur Gautur vísar þarna til manns með barefli. Það mun hafa valdið ruglingi í málinu að á meðan deilunni stóð í dyrum vinnustofunnar birtist þar maður utan af götu með barefli í hönd og lét ófriðlega. Mun það hafa verið nágranni sem var langþreyttur á hávaðanum frá vinnustofunni. Pétur Gautur og dóttir hans segja að sú saga hafi farið á kreik að Pétur Gautur væri umræddur maður.
Kristín, dóttir Péturs Gauts, segir fráleitt að túlka það sem þarna gerðist sem ofbeldi af hálfu hennar og föður hennar:
„Eins og ég upplifði þetta þá var ég þarna með gleðskap, við vorum þarna sex manneskjur á þessari vinnustofu. Við erum í miðbæ Reykjavíkur og jú við vorum að spila tónlist, það var glaumur og það var komið fram yfir miðnætti. Þá lemur þessi kona á dyrnar af miklu offorsi, ég byrja að tala við hana, hún sýnir mér mikinn dónaskap og ég svara í sömu mynt. Ég var ekki að ráðast á hana, ég snerti þessa konu aldrei. Það er ekki hægt að tala við þann sem öskrar á þig öðruvísi en að öskra á móti en ég snerti hana aldrei. Svo er Sigga Dögg að halda því fram að ég hafi beitt líkamlegu ofbeldi, þetta er svo mikið bull,“ segir Kristín.
Bæði Kristín og Pétur Gautur viðurkenna að oft sé spiluð hávær tónlist í vinnustofu hans og neita í raun ekki ásökunum um ónæði. Það sé hins vegar fráleitt að saka þau um ofbeldi. Undanfarið hefur hinn þekkti áhrifavaldur og einkaþjálfari, Edda Falak, sakað Kristínu um ofbeldi án þess þó að nafngreina hana beint. Edda var áberandi í nýju MeToo-bylgunni sem reis hátt í maí í kjölfar ásakana gegn fjölmiðlamanninum Sölva Tryggvasyni. Kristín gremst það mjög að Edda skuli í raun draga hana inn í MeToo-umræðuna:
„Þetta er miklu fremur ofbeldi en það sem verið er að bera á okkur. Þetta er neteinelti og með því að tengja það við MeToo þá er fólk fælt frá því að andmæla þessu. Þarna er verið að skýla sér á bak við MeToo og maður er varnarlaus, ef einhver trúir þessu ekki þá er sá hinn sami sakaður um að styðja ofbeldi. Ég hef aldrei talað við Eddu Falak beint, allt sem ég á að hafa sagt sagði ég við barnsföður minn í einkaskilaboðum og þetta snerist um að hún var að birta myndir af barninu mínu og ég bað um að því yrði hætt.“
Kristín segir jafnframt að engin skýrsla hafi verið tekin af henni, föður hennar né nokkrum gesti í samkvæminu. Lögregla hafi komið á staðinn, rætt stuttlega við hana og síðan farið. Þess vegna þyki henni undarlegt að búið sé að leggja fram kæru í málinu. Samkvæmt öruggum heimildum DV var hins vegar kæra lögð fram í apríl.
Ok svo skilaboðin hætti. Svona standa málin. Ég var vakin um miðja nótt fyrir nokkrum vikum til að sækja systur mína sem varð fyrir líkamsárás af hendur mjög þekktra einstaklinga í okkar samfélagi. Ekki bara leiðindi. Árás, líkamleg og andleg.
— Sigga Dögg (@KjaftadumKynlif) May 31, 2021