„Ég er dýraníðingur og réttast væri að taka mig og gelda. Og þar að auki er ég einstaklega leiðinlegur maður og biskup ætti að reka mig fyrir að leggja stóran hóp fólks í einelti,“ svona hefst grein sem séra Sigurður Ægisson, prestur og Siglfirðingur, ritar í Morgunblaðinu í dag. Sigurður er afar mótfallin lausagöngu katta yfir varptíma fugla og hefur kallað eftir því að sveitarfélagið Fjallabyggð bregðist við. Meðal annars hefur hann sent inn erindi til sveitarstjórnar en einnig hefur hann tekið upp á því að birta auglýsingu í bæjarblaðinu þar sem íbúar eru hvattir til að tilkynna ónæði og sóðaskap sem hlýst af köttum.
Þó nokkra hópa má finna á Facebook þar sem kattavinir koma saman og má segja að herferð Sigurðar hafi lagst illa í þá meðlimi. Þar hefur Sigurður verið kallaður illum nöfnum og kallað eftir því að Þjóðkirkjan reki hann úr starfi.
„Ég er dýraníðingur og réttast væri að taka mig og gelda. Og þar að auki er ég einstaklega leiðinlegur maður og biskup ætti að reka mig fyrir að leggja stóran hóp fólks í einelti eða senda mig í eitthvert afdalabrauð, þar sem hvorki er net- né símasamband. Alla vega er þetta skoðun margra kattaeigenda á Facebook og víðar. Og ýmislegt fleira er þar sagt í slíkum dúr,“ skrifar Sigurður.
Sigurður er þó hvergi af baki dottinn og í grein hans í dag rekur hann þá ógn sem fuglum sem og öðrum skepnum stafi af köttum. Hann skrifaði í janúar bréf til skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar og hvatti til að lausaganga katta yrði bönnuð í sveitarfélaginu frá 1. maí til 15. júlí – eða yfir varptíma fugla.
Erindi Sigurðar var samþykkt en hann segir að bæjarstjórn hafi „guggnað – vegna utanaðkomandi þrýstings“
Sigurður bendir á að það sé ósanngjarnt að ráðast að starfi hans í þessari umræðu. Þó hann sé prestur sé hann líka manneskja – meðal annars er hann fuglavinur.
„Þegar ég tók vígslu, 16. júní 1985 og gekk í raðir presta þjóðkirkjunnar, afsalaði ég mér engum mannréttindum. Ég missti ekki kosningaréttinn, ótrúlegt en satt, og hef ekki kosningadögum sett X við alla lista sem í framboði eru hverju sinni, þótt mér hafi líkað við alla frambjóðendur. Ég hef tekið afstöðu.“
Hann segir að þeir sem kalli eftir því að hann verði sviptur prestatitlinum séu að hjóla í manninn frekar en boltann.
„Þar að auki er ég innfæddur Siglfirðingur og tel mig hafa leyfi til að tjá mig um málefni sem í Fjallabyggð eru á baugi hverju sinni. Í þessum umrædda tilviki gerði ég það sem fuglavinur. Hins vegar er prestaspilinu gjarnan veifað, þegar ég á í hlut, og það var eins núna. Sennilega út af því, að í rökfæðinni er auðveldara að fara í manninn en boltann. Það er gömul og þekkt taktík. Og helst að reyna að gera jafnframt lítið úr honum.“
Sigurður segir að kötturinn sé ekki náttúrulegur hluti af evrópsku fánunni heldur sé víða flokkaður sem mjög ágeng og framandi dýrategund.
Samkvæmt upplýsingum erlendis frá eiga kettir sök á útdauða tveggja skriðdýrategunda, 21 spendýrategundar og 40 fuglategunda og séu nú á tímum ógn við minnst 367 tegundir í útrýmingarhættu. Bara í Kanada sé talið að kettir drepi á bilinu 100-350 milljónir fugla árlega.
„Bandarískum fuglafræðingi var hótað lífláti eftir að hann ritaði bók um ágang kattanna þar í álfu og lagði fram hugmyndir um mótvægisaðgerðir. Heiftin var svo mikil. Og er. En þessa umræðu verður að taka, þar og hér og annars staðar, hvort sem fólki líkar það betur eða verr.“
Sigurður bendir á að það sé í eðli kattarins að drepa.
„Veiðieðlið segir kettinum að drepa, en við getum stýrt honum og lágmarkað þannig skaðann. Um það snýst málið.“
Auk þess hafi Íslands skuldbundið sig til að vernda villta fugla á varptíma.
„Hér mætti rifja upp, að í alþjóðasamþykkt um fuglavernd frá 1956, sem Bernarsamningurinn hefur að mestu tekið yfir, en hann var undirritaður 19. september 1979 og staðfestur hér á landi árið 1993, skuldbinda aðildarríkin sig m.a. til að veita villtum fuglum vernd á varptímanum.
Er það gert?“