Maður á miðjum aldri lést í dag eftir hörmulegt slys við Svuntufoss í Ósá fyrir botni Patreksfjarðar. Í tilkynningu frá Lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að viðbragðsaðilum hafi verið tilkynnt um slysið kl.11:19 og þá þegar haldið á vettvang. Meðal annars var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð til.
Í tilkynningunni kemur fram að maðurinn hafi ætla að fara út í hyl undir Svuntufossi. Mikill straumur hafi reynst í hylnum og virðist sem svo að maðurinn hafist misst fótana og lent í sjálfheldu. Hann festist um stund þar til nærstaddir komu til bjargar en þá hafði hann misst meðvitund.
Þau sem voru á staðnum hófu þegar endurlífgun og var þeim haldið áfram allt þar til maðurinn hafði verið fluttur með þyrlunni á sjúkrahús í Reykjavík þar sem hann var úrskurðaður látinn.
Rannsókn á tildrögum slyssin er í höndum lögreglunnar á Vestfjörðum. Ótímabært er að greina frá nafni mannsins að svo stöddu en í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að fjölskyldu hans hafi verið tilkynnt um atburðinn.