Það eru ekki allir fæddir með þann hæfileika að líta vel út á myndum. Sumir eru bara alltaf eins og álfur út úr hól alveg sama hvað. En hvað ef lykillinn að betri myndum hefur allan tímann verið innra með þér? Inni í munninum til að vera nákvæmari.
Staðsetning tungunnar gæti verið lausnin til að koma í veg fyrir að ættingjarnir klippi þig út úr öllum hópmyndum.
Með því að þrýsta tungunni upp að efri góm, þannig að tungubroddurinn sé rétt fyrir aftan framtennurnar, getur þú litið betur út á mynd.
Með þessu móti virkar bros þitt eðlilegra, afslappað frekar en þvingað. Þetta lætur andlitið einnig út fyrir að vera skarpara þar sem með þessu móti teygist aðeins á undirhökunni. Sumir segja að þetta skrapi jafnvel nokkur ár af myndrænum aldri þínum.
Önnur góð ráð fyrir betri myndir er að fórna brosinu fyrir „hissa“ svipinn. Bros ýkja oft hrukkur og fínar línur og þó svo ekkert sé að því og fullkomlega eðlilegt að andlit okkar beri þess merki að við höfum lifað í nokkurn tíma þá finnst okkur ekki öllum gaman að fá staðfestingu þess deilt inn á Facebook af vel viljandi frænkum.
Líkamsstaðan skiptir líka máli. Ekki þykir gott að snúa líkamanum beint að myndavélinni. Betra er að vera ögn á hlið eins og sést á myndinni hér að neðan.