Í dagbók lögreglu er greint frá atviki sem DV fjallaði um í gærkvöld: Kona skildi eftir bíl sinn í gangi fyrir utan verslun við Háteigsveg á meðan hún fór inn í verslunina. Þegar hún kom út úr búðinni sat ókunnugur maður undir stýri á bílnum. Er konan opnaði bíldyrnar ók maðurinn af stað og brunaði upp Háteigsveg.
Bíllinn fannst rúmum tveimur tímum síðar og var þjófurinn þá sofandi undir stýri. Hann var í mjög annarlegu ástandi sökum áfengis og fíkniefna og var vistaður í fangaklefa.
Í dagbók lögreglu segir einnig frá því að maður var handtekinn í hverfi 105 í Reykjavík vegna eignaspjalla og heimilisofbeldis. Var hann vistaður í fangaklefa og bíður skýrslutöku þegar rennur af honum.
DV greindi í gærkvöld frá bílveltu við Hamraborg í Kópavogi. Í dagbók lögreglu er einnig greint frá atvikinu og staðfest að engin slys urðu á fólki.
Húsbrot átti sér stað í miðbænum í nótt og voru þrír menn handteknir vegna þess.
Loks greinir frá því að ölvaður maður velti bíl sínum á Vatnsendavegi í gærkvöld. Ekki urðu slys á fólki en maðurinn var vistaður í fangaklefa.