Mikið hvassviðri var á höfuðborgarsvæðinu í gær og þurftu lögregla og björgunarsveitir að glíma við fjúkandi lausamuni. Voru björgunarsveitir við þessi störf til kl. 23 í gærkvöld. Ýmsir hlutir af byggingarsvæðum fuku og meðal annara muna sem fóru á flug í veðrinu voru trampólín og hjólhýsi. Kemur þetta fram í dagbók lögreglu.
Húsmóðir við Grýtubakka virtist ekki átta sig á mætti veðursins því hún hélt að trampólíni sonar hennar hefði verið stolið þegar það var ekki lengur sjáanlegt á lóðinni. Hún skrifaði eftirfarandi skilaboð á Facebook: „Í dag var trampólíni stolið. Það væri gott ef því yrði skilað. Það er ekki fallegt að stela eigum fjögurra ára barns.“
Konan birti tilkynningu um þetta í íbúahópi Breiðhyltinga á Facebook en ekki löngu síðar birtist önnur tilkynning með mynd af sama trampólíni:
„Trampólín fyrir utan Dvergabakka. Veit einhver hvaðan það kemur?“