Viðtal þingkonunnar Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur við Jóhannes Stefánsson, uppljóstrara í Samherjamálinu hófst klukkan 17 í dag. Eftir einhverja stund kom að því að Jóhannes átti að svara spurningum frá áhorfendum, en þá fraus skyndilega útsendingin.
Viðtalið bar yfirskriftina Sannleikurinn um Samherja, en því var bæði streymt á Facebook-síðu og heimasíðu Pírata. Auk þess var streyminu deilt á DV og fleiri fjölmiðlum.
Í kjölfar tæknilegu örðugleikanna skrifaði Þórhildur Sunna á Facebook-síðu Pírata:
„Við skiljum alls ekki hvað er að ske með útsendinguna okkar. Við erum með topp græjur, topp net en allt í hassi. Það er verið að vinna mjög hörðum höndum að finna lausn á þessu rugli.“
Í athugasemdum fyrir neðan skilaboð Þórhildar fóru nokkrir að velta fyrir sér hvort utanaðkomandi aðstæður væru að hafa áhrif á streymið. Til að mynda spurði einn netverji: „Eruð þið með þjónustu frá Vodafone?“ og bætti við „Samherji á hlut í Vodafone.“ Þórhildur svaraði því fljótlega, og sagði að ekki væri verið að notast við þjónustu frá Vodafone.
Að lokum tók Þórhildur málin í sínar eigin hendur og ákvað að nota símann sinn. Seinni hluta þessa viðtals, sem tekið var upp á síma Þórhildar má sjá hér að neðan.