Auglýsingastofan Brandenburg hefur ráðið Birnu Maríu Másdóttur í starf samfélagsmiðlaráðgjafa. Birna María hefur víðtæka reynslu af gerð efnis fyrir samfélagsmiðla og starfaði sem samfélagsmiðlastjóri á Útvarpi 101. Þá hefur Birna María látið mikið til sín taka í sjónvarpi, þróaði hugmyndina og skrifar þættina GYM sem sýndir eru á Stöð 2 og sá um dagskrárgerð og umsjón í þáttunum Bibba flýgur og Áttavillt sem hlutu tilnefningu til Eddunnar 2021.
„Það er gaman að fá Birnu Maríu, eða MC Bibbu eins og hún er oft kölluð, inn á stofuna. Hún býr yfir mikilli reynslu og þekkir heim samfélagsmiðla vel. Þá hefur hún öðlast mikla reynslu af gerð efnis (e. content marketing) sem er afar dýrmætt. Hún er algjörlega á þeirri línu sem við viljum vera — efnið þarf að segja sögu og vera áhugavert. Við hlökkum til að nýta kraftinn og ferskar hugmyndir sem hún kemur með inn á stofuna,“ segir Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Brandenburgar.
Hjá Brandenburg starfa rúmlega 30 sérfræðingar á sviði vörumerkjaráðgjafar, hönnunar, hugmyndavinnu og textagerðar auk þess að sjá um birtingar, kaup og ráðgjöf gegnum snjallbirtingafyrirtækið Datera.