Edda Kristín Bergþórsdóttir var 19 ára gömul þegar tveir karlmenn brutu gróflega gegn henni í útskriftarferð hennar til Krítar. Hún stígur fram í Ísland í dag til að leggja áherslu á hversu mikilvægt það er fyrir þolendur að leita hjálpar til að vinna úr sínum málum.
Á áttunda degi útskriftarferðarinnar ákváðu Edda og vinir hennar að fara út að skemmta sér. Þau skelltu sér á skemmtistað og höfðu gaman fram á rauða nótt. Þegar ballið var búið ætlaði Edda að hitta vin sinn sem hafði skellt sér á skyndibitastaðinn McDonalds.
„Vinkonan mín ætlaði að fara á hótelið aftur og ég svona, æji ég nenni ekki alveg að fara á hótelið strax. Ég vissi að vinur minn væri nýfarinn á McDonalds sem var svona tvær mínútur í burtu. Ég ætlaði bara að hitta hann á McDonalds […]og ég ætlaði bara að rölta í rólegheitunum. Ég hélt að ekkert myndi gerast á tveggja mínútna rölti.”
Það reyndist því miður rangt.
„Áður en ég veit af þá eru tveir menn standandi fyrir aftan mig og grípa í mig og labba bara með mig eitthvert.”
Þeir fóru með hana inn í húsasund og Edda varð máttlaus af ótta.
„Ég varð alveg máttlaus og mér leið eins og þeir væru að labba með mig í einhvern hálftíma en þetta voru örugglega fimm mínútur.”
Mennirnir voru tveir og Edda treysti sér ekki til að berjast á móti enda þeir í yfirburðastöðu.
„Síðan skiptust þeir á að halda mér niðri á meðan hinn nauðgaði mér. Síðan eftir þetta, ég veit ekki hversu langan tíma þetta tók, ekki það langt, þó að mér hafi liðið eins og þetta hafi verið margir tímar, þá segir annar þeirra, „thank you for your time“, og þeir skilja eftir peningaseðil og klink inni í mér. Síðan bara fara þeir.“
Eftir að mennirnir fóru þorði Edda ekki að hreyfa sig strax.
„Ég bara ligg á jörðinni í örugglega tíu mínútur korter áður en ég stend upp. Síðan ætla ég að labba af stað og finna hótelið til þess að geta fengið að fara til læknis eða eitthvað en ég rata ekkert og vissi ekkert hvar ég var.”
Hún rataði ekki aftur á hótelið sitt, síminn hennar var batteríslaus og hún í áfalli. Hún ráfaði því um í tuttugu mínútur áður en hún fann annað hótel og leitaði þar eftir aðstoð. Þegar búið var að koma henni í læknishendur var haft samband við hótelið og ferðaskrifstofuna sem og lögregluna.
Lögreglan yfirheyrði hana strax um nóttina. Svo daginn eftir var hún boðuð til lögreglu en þá til að bera kennsl á tvo menn sem höfðu verið handteknir vegna málsins. Það reyndust vera árásarmenn Eddu.
Eftir að Edda var komin heim til Íslands var málið úti enn í rannsókn. Hún þurfti því að fljúga aftur til Grikklands til að gefa skýrslu og svo aftur mánuði seinna til að bera vitni í málinu.
„Þar þurfti ég að bera vitni fyrir dómi og þeir sátu einum metra frá mér. Það var hræðilegt. Ég sat í salnum þegar þeir löbbuðu inn og ég fór strax í sjokk þegar þeir komu inn.“
Annar maðurinn fékk fjögurra ára dóm og hinn fjögurra og hálfs árs. Ákæruvaldið er þó að áfrýja niðurstöðunni og fara fram á harðari refsingu.
Edda er í dag að takast á við afleiðingar brotsins.
„Ég er með áfallastreituröskun, mikinn kvíða, ég sef mjög illa og hef ekki sofið heila nótt síðan að þetta gerðist,“ sagði Edda en hún glímir við tíðar martraðir. Hún óttast jafnframt að vera ein á ferli og segir að ef brotið hefði átt sér stað á Íslandi væri hún líklega hætt að fara út úr húsi. Hún segir þó mikilvægt að leita aðstoðar í kjölfar nauðgunar og hún hefur verið dugleg að gera slíkt, bæði með því að leita til sálfræðinga og til Stígamóta.
„Ég held að það hafi alveg hjálpað að fara strax til lögreglu og bíða ekki. Ég held að ef ég hefði beðið þá væri ég örugglega ekki að tala um þetta við neinn.“
Hún segir að þó hún viti að hún beri enga ábyrgð á því sem gerðist þá óhjákvæmilega kenni hún sér við og við um.
„Ég hugsa hluti eins og ég hefði átt að berjast á móti, öskra og allt til þess að komast undan þessu. En þeir voru tveir, ég var ein. Þeir voru líklegast edrú og ég hefði sennilega ekki komist undan og þetta hefði geta farið verr. Í grunninn veit ég að þetta er ekki mér að kenna.“