Bæjarráð Kópavogsbæjar staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs bæjarins um að hafna umsókn félagsins Álfhólsvegur 29 ehf. um byggingarleyfi fyrir sex íbúða fjölbýlishús á þremur hæðum á samnefndri lóð. Húsið átti að vera rúmlega 700 fermetrar að heildarflatarmáli.
Eigandi fyrirtækisins er knattspyrnukempan Grétar Sigfinnur Sigurðarson sem gerði garðinn frægan með KR, Stjörnunni og fleiri liðum.
Í umsókninni um byggingarleyfið kom fram að einbýlishús sem stæði á lóðinni yrði rifið. Félag Grétars Sigfinns festi kaup á umræddu húsi, sem er 126,4 fermetrar að stærð, um miðjan febrúar á þessu ári og var kaupverðið 64,5 milljónir króna. Skömmu síðar var umsókn um áðurnefndar fyrirætlanir komnar inn á borð bæjaryfirvalda.
Ef af framkvæmdunum hefði orðið hefði byggingarhlutfall lóðarinnar farið úr 0,12 og upp í 0,67. Ekki kom fram í fundargerðum bæjaryfirvalda hver ástæðan fyrir höfnuninni var.