Eignastýring Landsbankans hefur gert samstarfssamning við bandaríska fjárfestingarbankann Goldman Sachs sem felur í sér að viðskiptavinir bankans geta nú fjárfest í fjölbreyttum fjárfestingarsjóðum Goldman Sachs.
Goldman Sachs Asset Management er leiðandi á eignastýringarmarkaði og er með yfir tvær billjónir Bandaríkjadala í stýringu. Þau leggja áherslu á að sjá fyrir breytingar á þörfum viðskiptavina með því að þróa nýjar vörur og þjónustu fyrir alla eignaflokka, þ.m.t. skuldabréf, peningamarkaðsgerninga, skráð og óskráð hlutabréf, almenn útlán, vogunarsjóði, innviði og fasteignir. Hjá Goldman Sachs starfa yfir 2.000 sérfræðingar sem sinna fjölbreyttum viðskiptavinahópi um allan heim.
Kristín Erla Jóhannsdóttir, forstöðumaður Eignastýringar Landsbankans, segist vera mjög ánægð með að vera komin í samstarf við Goldman Sachs.
„Samstarfið opnar á mikil tækifæri fyrir viðskiptavini okkar. Goldman Sachs býður upp á fjölbreytt úrval sjóða og fylgir nýjustu straumum og stefnum í fjárfestingum með sjálfbærni að leiðarljósi. Sem dæmi má nefna alþjóðlega „Millennials“ hlutabréfasjóðinn sem fjárfestir í félögum sem leggja sérstaka áherslu á neyslumynstur aldamótakynslóðarinnar. Þetta er nýstárlegur, alþjóðlegur sjóður sem getur hentað vel í dreift eignasafn en við leggjum metnað í að sníða eignasöfn viðskiptavina okkar að þeirra þörfum.“
Thomas Kønig, framkvæmdastjóri og yfirmaður Norðurlandamála hjá Goldman Sachs Asset Management, er einnig mjög ánægður og segist vera spenntur fyrir samstarfinu.
„Við höfum stefnt að því að auka umsvif okkar á Norðurlöndum, bæði með beinum hætti en ekki síður í gegnum samstarf við einstaka fjármálafyrirtæki. Við lítum á Ísland sem mikilvægt markaðssvæði og viljum vinna með traustum innlendum aðila. Við erum sannfærð um að samstarfið leiði til ávinnings þar sem alþjóðleg þekking okkar og vöruframboð í öllum eignaflokkum mætir þekkingu Landsbankans á íslensku samfélagi og markaði. Við hlökkum til samstarfsins og að þróa það enn frekar til framtíðar.“
Landsbankinn býður nú þegar upp á miðlun á erlendum hlutabréfum og skuldabréfum á öllum helstu mörkuðum. Einnig bjóðum við upp á milligöngu um kaup í erlendum sjóðum hjá þekktum sjóðastýringarfyrirtækjum og í erlendum sjóðum sem eru í rekstri hjá Landsbréfum, dótturfélagi Landsbankans. Við erum leiðandi á sviði ábyrgra fjárfestinga og bjóðum viðskiptavinum tækifæri til að fjárfesta með okkur í sjálfbærri framtíð, þannig að bæði fjárfestar og samfélagið hljóti ávinning af.