Harðar deilur Drífu Snædal forseta ASÍ og Birgis Jónssonar forstjóra PLAY ættu ekki að hafa farið fram hjá neinum. Í síðustu viku tókust þau á í fjölmiðlum með skeytasendingum, aðsendum greinum, færslum á Facebook, í auglýsingum og loks í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni um samninga PLAY við Íslenska flugstéttarfélagið.
Íslenska flugstéttarfélagið var reist á rústum stéttarfélags starfsmanna WOW air og samdi það svo við PLAY um kaup og kjör væntanlegra starfsmanna flugfélagsins PLAY, sem senn flýgur sitt fyrsta flug.
Drífa sagði félagið vera draugafélag, eða svokallað gult stéttarfélag, sem væri í raun stýrt óbeint af stjórnendum PLAY. Sagði hún samningana ólöglega enda grunnlaun langt undir lágmarkslaunum. Birgir sagði þetta rangt hjá Drífu og sagði umsamin lágmarkslaun vera 350 þúsund, tugum þúsunda hærri en sömu laun hjá Icelandair.
Drífa hvatti jafnframt almenning í landinu til þess að sniðganga flugfélagið í síðustu viku sem Birgir tók ekki þegjandi. Kallaði hann orð Drífu „aðför,“ að einkareknu fyrirtæki sem væri að hefja rekstur.
Íslenska flugstéttarfélagið sendi svo loks kjarasamningana inn til ríkissáttasemjara fyrir helgi en í skjalið vantaði síðustu blaðsíðuna sem geymir undirskriftir samningsaðila. Ríkissáttasemjari krafðist þess að fá að sjá þá blaðsíðu og varð í dag að ósk sinni.
Í stjórn Íslenska flugstéttarfélagsins eru þeir Vignir Örn Garðarsson, Friðrik Már Ottesen og Margeir Stefánsson. Þeir eru allir flugmenn. Þeir Vignir og Margeir voru báðir flugmenn hjá WOW air og Friðrik var einn þeirra sem tók við fyrstu vél PLAY air fyrir örfáum dögum.
Athygli vekur að flugfreyjur, sem væntanlega verður meirihluti félagsmanna stéttarfélagsins þegar PLAY hefur lokið við að manna allar sínar vélar enda mun fleiri flugfreyjur að störfum fyrir flugfélög en flugmenn, eru hvergi að sjá í stjórninni og ekki að sjá að nein starfandi eða væntanleg flugfreyja hafi komið að gerð samningsins um kjör flugfreyja við PLAY.
Að óbreyttu munu því flugfreyjur, og þjónar, sigla inn í störf sín hjá PLAY með kjarasamning sem varð til í samningaviðræðum flugmanna við flugfélagið.
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, vísaði blaðamanni á Drífu Snædal hjá ASÍ í samtali við blaðamann og sagði Flugfreyjufélagið standa alfarið á bakvið hana og hennar orð í deilu PLAY og ASÍ.
Aðspurð hvort það hafi komið ASÍ á óvart að þrír flugmenn sátu við samningaborðið fyrir hönd flugfreyja hjá ÍFF sagði Drífa Snædal svo ekki vera. Í samtali við blaðamann sagði hún það staðfesta grunsemdir sem ASÍ hefur haft að flugfreyjur hefðu ekki komið að samningagerðinni. „Þær komu ekki að þessum samningi, samþykktu ekki þennan samning, við höfum ekki séð neitt um að flugfreyjur hafi komið með neinum hætti að þessari samningagerð og það brýtur í bága við grunngildi íslensks vinnumarkaðar, að kjarasamningar séu gerðir af þeim sem vinna eftir þeim,“ segir Drífa.
Aðspurð hvort það sé þó eitthvað því til fyrirstöðu að ólíkar stéttir með ólíka samninga komi sér saman um eitt stéttarfélög, eins og mýmörg dæmi eru raunar um, svarar Drífa neitandi. „En,“ skýtur hún þó að. „Við skulum samt hafa það í huga að það er hér gamalgróið stéttarfélag til á landinu sem hefur áratugalanga reynslu af því að semja fyrir hönd flugfreyja og PLAY hefur neitað að hitta það félag.“
Hjá Icelandair hafa þrjú stéttarfélög í gegnum árin staðið vörð um hagsmuni flugstéttanna þriggja, flugmanna, flugfreyja og flugvirkja.