Ung verðandi móðir, sem komin var tæpa 5 mánuði á leið, lést í byrjun síðustu viku. Ekki þarf að taka fram að um ólýsanlegan harmleik er að ræða fyrir aðstandendur.
Það hefur sett ljótan blett á sorgarferli aðstandenda að undanfarna viku hefur verið í dreifingu samsett mynd þar sem því er haldið fram að unga konan hafi látist úr blóðtappa í heila fjórum klukkustundum eftir að hún var bólusett fyrir Covid-19. Þá hefur DV og blaðamönnum miðilsins borist fjölmargar ábendingar þar sem hvatt var til þess að fjallað yrði um þetta meinta bólusetningarhneyksli.
Þegar myndinni var svo meðal annars dreift inn í fjölmennan umræðuhóp um Covid-19 sá eftirlifandi unnustu konunnar sig knúinn til þess bregðast við og leiðrétta hinnar ógeðfelldu sögusagnir.
„Vil bara taka það fram að það er verið að dreifa röngum upplýsingum um [….] mína heitina. Hún var sem sagt ólétt og lést á mánudaginn [17. maí] útaf blóðtappa í lungum. Hér var sett inn áðan póstur sem sagði að hún hefði fengið bóluefni og dáið svo úr blóðtappa í heila nokkrum tímum síðar. Það er er einfaldlega rangt þar sem hún hafði ekki farið í bólusetningu,“ skrifaði unnustinn í skeytinu.
Bað hann að endingu fólk að taka ekki mark á ruglinu og ekki dreifa því áfram.