fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

„Þegar góðu strákarnir stíga fram og „axla ábyrgð“ á öllum mistökunum sínum“ – „Það heitir að hampa sjálfum sér á kostnað þolenda“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 24. maí 2021 19:00

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Lilliendahl, baráttukona og femínisti, ritar í dag grein sem birtist hjá Kjarnanum þar sem hún fjallar um gerandameðvirkni í samfélaginu og hvernig gerendur hafi sumir stigið fram og gengist við einhverri ábyrgð á sínum eigin forsendum á samfélagsmiðlum. Segir hún þessa leið ranga. Með þessum hætti séu gerendur að troða sér inn í sviðsljósið, oft skilgreina með vægum hætti hvað átti sér stað þegar þeir gengu yfir mörk og svo þurfi þolendur þeirra að horfa á samfélagið hylla þessa menn fyrir hugrekkið.

Réttar væri að mennirnir tæku alvöru ábyrgð á brotum sínum, að þeir leiti viðeigandi aðstoðar, dragi sig í hlé eða hreinlega gangi inn á næstu lögreglustöð og játi á sig verknaðinn.

Margar birtingarmyndir

„Gerendameðvirkni á sér margvíslegar birtingarmyndir,“ skrifar Hildur. Hún segir gerendameðvirkni hafa kveikt yfirstandandi metoo bylgju af stað eftir að Sölvi Tryggvason, fjölmiðlamaður hafi stigið fram til að sverja af sér sögusagnir. Síðar varð Sölvi kærður fyrir það hátterni sem hann kvaðst saklaus af.

„Eftir að sjónvarpsmaður tók viðtal við sjálfan sig þar sem hann öskurgrét yfir ranglætinu sem fólst í kjaftasögunum um að hann beiti konur margvíslegu ofbeldi. Hann lagði þar sérstaka áherslu á að hann væri, eins og allir vita, góður strákur. Þegar hann var svo kærður fyrir téð ofbeldi hvarf hann úr sviðsljósinu.“

Nú hafi önnur tegund gerendameðvirkni einnig gert vart um sig. Nú séu svonefndir „góðir strákar“ að stíga fram og „axla ábyrgð“ á hegðun sinni. „Gera „reikningsskil“. Þeir eru nefnilega svo góðir.“

Tveir þingmenn og uppgjörið

Hildur bendir í dæmaskyni á Kolbein Óttarsson Proppé, þingmann Vinstri Græna sem ákvað að gefa ekki kost á sér í næstu kosningum vegna hegðunar sinnar í garð kvenna.

„Þingmaður skrifar Facebookstatus þar sem hann lýsir því að konur séu alltaf að falla kylliflatar fyrir honum og vegna hrifnæmi sinnar falli hann líka fyrir þeim en svo sé hann svo illa haldinn af skuldbindingarfælni og óuppgerðum tilfinningum að hann neyðist til að hætta með þeim og hverfa inn í skelina sína. Hann muni af þessum ástæðum ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Hann ætlar nú samt að klára kjörtímabilið, enda fylgir því biðlaunaréttur.“

Eins vísar Hildur til Ágústs Ólafar Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem gekkst við því um árið að hafa kynferðislega áreitt blaðakonu Kjarnans.

„Annar þingmaður skrifar Facebookstatus þar sem hann lýsir misheppnaðri viðreynslu sinni við blaðakonu á skrifstofu um hánótt. Hann spyr hana að eigin sögn í tvígang hvort þau eigi að kyssast. Þegar hún afþakkar lætur hann „særandi orð“ falla um hana. Hann muni af þessum ástæðum taka sér tveggja mánaða leyfi frá þingstörfum. Hann kemur svo aftur og þegar honum gengur ekki vel í næsta prófkjöri heyrist hávært hvísl um að það megi nú ekkert lengur, menn séu bara grafnir lifandi fyrir öll mistök og eigi sér aldrei viðreisnar von.“

Góðu strákarnir skila samviskubitinu

Nú séu: „Ljóðskáld og fyrrum borgarfulltrúar og fatahönnuðir og góðir strákar úr öllum lögum samfélagsins“ búnir að stíga fram, þeir hafi farið í viðtöl, skrifað færslur á samfélagsmiðla og talað um að fara yfir mörk en gjarnan vísað til þess að umrætt sinn hafi þeir verið ungir og fullir.

Samfélagið taki þessa menn og hrósi þeim fyrir hugrekkið. Með þessu þurfi svo þolendur þeirra að fylgjast. Þolendur hafi ekki verið hafðir með í ráðum þegar gerendur þeirra ákváðu að opinbera brot sín.

„Brotnar konur sem voru ekki hafðar með í ráðum, fengu ekki tækifæri til að undirbúa sig, fengu ekki að segja skoðun sína, fengu ekki að koma útgáfu sinni af atburðum á framfæri. Hafa aldrei fengið fyrirgefningarbeiðni og kannast bara alls ekki við alla þessa einlægni og auðmýkt.“

Hampa sér á kostnað þolenda

Hildur segir að í lokuðum hópum sem hún er í á á netinu séu þolendur þessara manna að deila upplifun sinni. Konur sitji nú í sárum

„Vegna þess að gerandinn þeirra steig fram opinberlega, sagði afskræmda og sjálfshyllandi útgáfu af ofbeldinu sem hann beitti þær og var fagnað ótæpilega af almenningi í kjölfarið. Það sem að ofan er lýst heitir ekki að axla ábyrgð eða gera reikningsskil. Það heitir að hampa sjálfum sér á kostnað þolenda. Það heitir gaslýsing og áframhaldandi ofbeldi. Það heitir að fara yfir mörk. Það heitir að taka sér pláss sem þeir eiga ekki tilkall til, gefa sér að þeir hafi rétt á hverju sem er og þurfi ekki að taka tillit til annars fólks, ekki einu sinni fólks sem er í sárum eftir þeirra eigin framkomu.“

Aðrar leiðir til að taka raunverulega ábyrgð

Hildur segir að karlmenn sem hafi brotið kynferðislega gegn konum og séu að íhuga að stíga fram til að skila samviskubitinu ættu að hugsa sig tvisvar um.

„Þetta eru ekki reikningsskilin sem við þurfum. Þetta eru alls ekki reikningsskil. Talaðu við sálfræðinginn þinn og strákana, leitaðu til Heimilisfriðar, farðu á Bandamannanámskeið Stígamóta, segðu af þér þingstörfum strax, dragðu þig í hlé og gakktu inn á næstu lögreglustöð og játaðu verknaðinn. Fyrir alla muni, ekki troða þér enn og aftur inn í huga þolenda þinna og neyða þá til að fylgjast með því þegar almenningur tollerar þig.“

Hér má lesa grein Hildar í heild sinni

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít