Frakkland, sem lenti í öðru sæti í evrópsku söngvakeppninni, ætlar ekki að kæra úrslit keppninnar alveg sama hvað kemur út úr fíkniefnaprófi sem keppendur Ítalíu, hljómsveitin Maneskin, ætla að undirgangast eftir að ásakanir bárust um að söngvari sveitarinnar hefði tekið eiturlyf í beinni útsendingu.
Utanríkisráðherra Frakklands Jean–Yves Le Drian hafði farið fram á að Maneskin yrðu dæmdir úr leik vegna myndskeiðsins, en Delphine Ernotte, forstjóri ríkissjónvarps Frakklands segir að það verði ekki gert.
„Frakkland, sem lenti í öðru sæti í Eurovision, ætlar ekki að leggja fram kvörtun hvað sem kemur út úr fíkniefnaprófinu. Atkvæðin voru greinilega Ítalíu í vil. Þeir stálu ekki sigrinum og það er það sem máli skiptir,“ sagði hún í samtali við La Parisien.
Auk þess hafa aðstandendur keppninnar gefið út yfirlýsingu um myndskeiði af meintri fíkniefnanotkun. Þar kemur fram að hljómsveitin hafi sjálf beðið um að söngvarinn verði settur í fíkniefnapróf til að sverja af sér ásakanirnar og að engin eiturlyf hafi verið í græna herberginu. Þar hafi glas brotnað á borðinu og söngvarinn hafi verið að hreinsa brotin upp. EBU staðfestir að glerbrot hafi fundist á svæðinu. Enn sé unnið að því að yfirfara myndskeiðið.