Þorbjörn Þórðarson, lögmaður og fyrrverandi fréttamaður, var hluti af svonefndri „skæruliðadeild“ Samherja sem rak áróðursstríð gegn blaðamönnum og ákveðnum fjölmiðlum.
Þegar Þorbjörn hætti hjá Stöð 2 árið 2019 stóð til að hann færi að starfa á lögmannsstofu en samkvæmt þeim gögnum sem Kjarninn og Stundin hafa undir höndum var hann kominn til starfa fyrir Samherja í nóvember það ár sem almannatengill.
Tók hann þar meðal annars þátt í að ritstýra og skrifa greinar sem birtust svo í nafni Páls Steingrímssonar, skipstjóra, þar sem vegið var að RÚV, Helga Seljan og gripið til varna fyrir Samherja eftir uppljóstranir um starfsemi þeirra í Namibíu. Hann mun einnig standa að baki myndskeiðum sem Samherji birti á YouTube til höfuðs Helga Seljan.
Athyglisvert er að líta á Facebook-síðu Þorbjörns í dag. En þar undir færslu sem var rituð árið 2019 í tilefni af því að hann var að hætta á Stöð 2 má nú finna eina athugasemd sem rituð var í gær af engum öðrum en Bubba Morthens, tónlistarmanni.
„Það er því miður sorglegur andskoti hvernig þú hefur farið með sjálfan þig og gjaldfellt þessi ár þín sem fréttamaður í framtíðinni verður þín minnst fyrst og fremst fyrir að hafa reynt að rústa mannorði fólks hversu lágt getur maður lagst.“
Aðrar athugasemdir við færsluna eru frá árinu 2019 og má þar sjá að Þorbjörn var þá vel liðinn innan stéttar fjölmiðlamanna
„Gangi þér vel á nýjum vettvangi,“ skrifaði Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri. En skæruliðadeild Samherja, sem samanstendur af Þorbirni, Páli Steingrímssyni skipstjóra og Örnu Bryndís McClure Baldvinsdóttur lögmanni, töluðu í samtölum sín á milli um að „afgreiða Ásgeir í 250 orðum“ til að svara gagnrýni hans á kæru Samherja gegn Seðlabankanum.
Aðrir sem óska Þorbirni velfarnaðar árið 2019 eru kollegar hans á Stöð 2 en einnig starfsmenn á RÚV þarna rétt áður en Þorbjörn tók þátt í að skipuleggja árásir á vinnustað þeirra. l