fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Saumaklúbbur ríkisins: Garðabær snuprar ferðaþyrstar húsmæður og sendir orlofsnefnd pillu – Ferja húsmæður til útlanda á kostnað skattgreiðenda

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 23. maí 2021 11:00

mynd/Orlofsnefnd Reykjavíkur samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orlofsnefndir húsmæðra eru enn starfræktar um allt land og hafa það eina hlutverk að koma ólaunuðum starfsmönnum heimila landsins í frí frá uppeldi barna. Ferðirnar eru vel sóttar, en meðalaldur þátttakenda talsvert hærri en við væri að búast. Ekkert eftirlit er með hvernig peningum er varið og engum ársreikningum hefur sjáanlega verið skilað. „Tímaskekkja“ segja Sjálfstæðismenn.

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti á fundi sínum á þriðjudag að vísa innheimtukröfu orlofsnefndar til bæjarstjóra og að fela honum að kanna á hvern hátt eftirliti er háttað með ráðstöfun greiðslna sveitarfélaga til orlofsnefndarinnar. Innheimtukrafa orlofsnefndarinnar barst bænum í apríl, og er, samkvæmt lögum um orlof húsmæðra frá 1972, á gjalddaga 15. maí.

Lögin eru umdeild og hafa margar tilraunir verið gerðar til þess að fella þau úr gildi. Síðast árið 2017 með frumvarpi Sjálfstæðismannsins Vilhjálms Árnasonar sem hann flutti með þremur meðflutningsmönnum úr sama flokki. Var það raunar fimmta tilraun þingmanna á níu árum til þess að slátra orlofsnefndarkerfinu, sem enn lifir góðu lífi.

Innheimtubréfið sem sent var Garðabæ í apríl. Það verður greitt, segir bæjarstjórinn.

Garðabær tiltekur sérstaklega í bókun sinni að bærinn hafi stutt umrætt frumvarp Vilhjálms Árnasonar og lýsir yfir vonbrigðum með að það hafi ekki orðið að lögum. „Bæjarráð telur greiðslu framlags til orlofs húsmæðra stríða gegn almennum viðhorfum sem grundvallast m.a. á jafnréttissjónarmiðum,“ segir í bókuninni.

Gamanið eftirlitslaust með öllu

Bókun bæjarráðs vekur jafnframt athygli á því að ekkert eftirlit er með því hvernig peningum skattgreiðenda er varið. Ljóst er að nefndirnar fara með skattfé og gætu því þurft að þurfa að lúta til dæmis eftirliti Ríkisendurskoðunar og ákvarðanir stjórna sjóðanna þá jafnvel kæranlegar til ráðuneytis sveitarstjórnarmála og þá Umboðsmanns Alþingis. Á það hefur þó aldrei verið reynt.

Samkvæmt lögunum skal hvert sveitarfélag greiða í orlofsnefnd húsmæðra á sínu svæði 100 krónur fyrir hvern íbúa sveitarfélagsins, en fjárhæðin miðast við framfærsluvísitölu. Upphæðin í ár er 120,51 krónur. Peningurinn fer svo í að fjármagna ferðir húsmæðra ýmist innanlands sem og til útlanda.

Líkt og sjá má af innheimtubréfinu hér að ofan greiðir Garðabær 2,1 milljón rúma á þessu ári. Íslendingar eru um það bil 370.000 um þessar mundir og má því áætla að heildarfé sem orlofsnefndir innheimta á þessu ári verði um 44,5 milljónir. Fyrir það mætti kaupa 3.423 flugmiða til London og til baka á verðinu sem PLAY auglýsti í síðustu viku.

Hvernig þessum fjárhæðum er eytt er svo á huldu og erfitt að finna upplýsingar um það, enda enga ársreikninga frá neinni skráðri Orlofsnefnd að finna frá upphafi. Þá eru engar fundargerðir aðalfunda eða ársreikningar að finna inni á heimasíðum nefndanna.

Hækkandi meðalaldur þrátt fyrir skilyrði um „barnafrí“

Hver sem er getur sótt um að komast í þessar ferðir kostaðar af skattgreiðendum, nema karlmenn að sjálfsögðu. Á þetta hefur reynt einu sinni fyrir kærunefnd jafnréttismála árið 2012 en þá kærði karlmaður synjun á umsókn hans um að skella sér í frí með dömunum. „Sérhver kona, sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu, án launagreiðslu fyrir það starf, á rétt á að sækja um orlof,“ segir nefninlega í lögunum. Þá er þess þar getið að líta skal til fjölda barna, aldur barna og „aðrar félagslegar aðstæður kvenna,“ þegar unnið er úr umsóknum um að komast í frí á vegum orlofsnefnda.

Samkvæmt upplýsingum DV hefur starfsemi orlofsnefndanna rekið talsvert frá upprunalegum tilgangi sínum og sést það best í hækkandi meðalaldri í ferðunum. Starfsmaður einnar orlofsnefndar sem DV ræddi við fyrir helgi sagði til að mynda að tíðir gestir „væru ekkjur og svona sem hefðu engan ferðafélaga,“ og horft væri til „þess konar félagslegra aðstæðna“ við val úr umsóknum. Andi laganna er þó bersýnilega að koma konum í frí frá ólaunuðu starfi barnauppeldis. Í greinargerð með lagafrumvarpinu sem varð að lögum um húsmæðraorlof segir einmitt:

Þar sem húsmæður fá engin laun fyrir störf sín, m.a. við að ala upp næstu kynslóð, væri það verðug viðurkenning af hálfu þjóðfélagsins, að í fjárlögum væru ætlaðar a.m.k. kr. 100,00 á ári fyrir hverja húsmóður í landinu, í því skyni að gefa nokkrum hluta þeirra kost á orlofi og hvíld frá störfum.

Á rafrænu umsóknareyðublaði á heimasíðu Orlofsnefndar Kópavogs er spurt hvort umsækjandi hafi farið áður í húsmæðraorlofs ferð, og þá hvaða ár og hvert. Athygli vekur að hvergi er spurt um fjölda barna eða aldur þeirra, líkt og lög gera sérstaklega ráð fyrir.

Lögin sem slík eru ekki löng, eða aðeins 11 greinar og ber bálkurinn þess augljós merki að vera kominn til ára sinna. Þar er til dæmis sérstaklega tiltekið að ráðuneyti skuli sjá um prentun umsóknareyðublaða (9. gr.), og senda þau orlofsnefndum. Lögin eru, sem fyrr sagði, frá árinu 1972. Síðan þá hefur heimilistölvan verið fundin upp og orðið býsna útbreidd. Prentarar líka.

Lögin má sjá hér.

Sjálfstæðisflokkurinn oft reynt, en mistekist

Garðabær er ekki einn um að hafa snuprað orlofsnefnd sína. Þannig lagðist til dæmis Vestmannaeyjabær á sveif með þingmönnunum fjórum úr Sjálfstæðisflokknum árið 2017. Sagði fréttaveitan Eyjar.net frá því að töluverðar umræður hefðu orðið á bæjarráðsfundi vegna greiðslna í orlofssjóð húsmæðra í bænum. Bókaði meirihluti bæjarins í fundargerð bæjarráðs að orlofsnefndakerfið væri „tímaskekkja,“ og að lögin væru ekki í anda þess jafnréttis sem nú er unnið að.“

Í umfjöllun Fréttablaðsins frá því í gær var haft eftir Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra Garðabæjar, að reikningur orlofsnefndarinnar yrði greiddur, en hann væri allt annað en sáttur með fyrirkomulagið. „Þetta er byggt á 19. aldar hugsunarhætti og hefur ekkert með jafnrétti að gera,“ sagði Gunnar.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Orlofsnefndar húsmæðra í Reykjavík var öllum ferðum aflýst eða frestað í fyrra. Fyrirhugaðar voru ferðir til Elass héraðs í Frakklandi, sigling á Dóná, Suður Englands, Helsinki og Tallinn, Rínarsigling auk tveggja ferða til Norður Ítalíu, en þeim var frestað til þessa árs. Að auki var ráðgert að fara aðventuferðir til Wursburg og Brugge í nóvember og desember í fyrra.

Ein athugasemd Garðabæjar snýr einmitt að því hvort lagaleg skylda bæjarins til þess að greiða í orlofssjóðinn standi ef öllum orlofsferðum orlofsnefndarinnar er aflýst. Í lögum um húsmæðraorlof er þó tekið fram að heimild sé til þess að geyma rekstrarfé á milli ára, „ef ástæða þykir til.“ Ekki er þó hægt að kanna það með sjálfstæðum hætti hvort það hafi verið gert, enda ársreikningar hvergi að finna.

Innanlandsfókus

Á þessu ári virðist fókusinn vera á að ferðast innanlands hjá Orlofsnefnd Reykjavíkur, en ráðgert er að fara þó nokkrar dagsferðir, meðal annars í Kaldadal og Borgarfjörð auk lengri ferða til Akureyrar og Vestmannaeyja.

Orlofsnefndir eru svo fleiri en bara í Reykjavík. Orlofsnefndin sem Garðabær mun nú væntanlega á næstu dögum greiða sína skuld við er Orlofsnefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þá eru fjölmargar aðrar orlofsnefndir, sumar sinna einu sveitarfélagi, til dæmis sú í Kópavogi en aðrar taka heilan landshluta að sér, líkt og Orlofsnefnd Austurlands.

Starfsemi orlofsnefnda er af heimasíðum nefndanna að ráða mismikil. Reykjavík er langstærst nefndanna og þar má finna mikið magn upplýsinga um fyrri ferðir og myndir úr ferðunum. Myndirnar hér að neðan eru fengnar að láni úr nýjustu myndasyrpu á síðunni. Hún er frá árinu 2010. Fyrir utan bloggfærslu frá árinu 2014, er það nýjasta útspil nefndarinnar á veraldarvefnum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum