fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Hörmulegar aðstæður au-pair stúlku á Íslandi – Sefur á mottu á gólfinu og þrælar á þremur heimilum

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 22. maí 2021 09:20

Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðustu ár hafa komið upp mörg dæmi þess að yfirvöld hafi þurft að grípa inn í aðstæður stúlkna sem að koma til landsins á svokölluðum vistráðningarsamningi eða au-pair. Algengast er að um sé að ræða stúlkur sem koma frá löndum utan EES-svæðisins og þá sérstaklega frá Filippseyjum.

Í vikunni barst DV frásögn íslenskrar konu um nöturlegar aðstæður ungrar au-pair frá Filippseyjum sem kom til landsins á slíkum samningi. Stúlkan er látin flakka á milli þriggja heimila til að sinna húsverkum og barnagæslu og vinna allt að 12 tíma langa vinnudaga. Að sögn konunnar sefur stúlkan iðulega á mottu á gólfi í sama herbergi og börn einnar fjölskyldunnar.

Um er að ræða skýrt brot á ákvæðum vistráðningasamnings sem skylt er að liggi fyrir áður en au-pair kemur til landsins. Samkvæmt slíkum samningi er það ófrávíkjanleg krafa að au-pair fái sérherbergi til að dvelja í. Hámarks vinnutími á dag eru 5 klukkustundir og samtals 30 klukkustundir á viku. Þá á vinnan að felast í léttum heimilisverkum og barnapössun. Hámarksdvalartími au-pair stúlkna er síðan eitt ár séu þær að koma frá löndum utan EES.

Stúlkan hefur hins vegar verið látin vinna langa vinnudaga og meðal annars við að þrífa glugga húsa að utanverðu sem og þvo bíl einnar fjölskyldunnar  auk annarra verka sem geta harla flokkast undir létt heimilisverk.

Samkvæmt heimildum DV er málið þó flókið því að þrátt fyrir aðstæðurnar þá vill au-pair stúlkan ekki yfirgefa Ísland. „Það sem hún upplifir hérlendis  er samt skárra en aðstæður hennar í heimalandinu. Hún verður þess helst vör í samanburði við aðrar filippeyskar au-pair vinkonur sínar að aðstæður hennar séu slæmar,“ heimildarmaður sem þekkir til stúlkunnar.

Mikið valdaójafnvægi

Þorsteinn Gunnarsson, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar, segir að komið hafi upp dæmi þar sem yfirvöld þurfa að hafa afskipti af slæmum aðstæðum vistráðinna einstaklinga. „Þetta eru erfið mál því að valdaójafnvægið er mikið. Þessir einstaklingar búa á heimilum þeirra sem taka á móti þeim og eru algjörlega upp á þær fjölskyldur komnar,“ segir Þorsteinn.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Eftirlit með aðbúnaði felst annars vegar í að kanna að öll skilyrði fyrir vistráðningu séu uppfyllt við vinnslu umsóknar og hins vegar er Útlendingastofnun heimilt að senda lögreglu á heimili vistráðinna einstaklinga. „Við höfum heimild til þess að senda lögreglu inn á heimili ef grunur leikur á að ekki sé allt með felldu eða að verið sé að brjóta á réttindum þessara einstaklinga. Það er því hægt að hafa samband við okkur ef að grunur leikur á slíku.“  Mikið þurfi því miður að ganga á til þess að stúlkurnar sjálfar leiti sér hjálpar og líklegt að sumar geri það ekki þrátt fyrir ófullnægjandi aðbúnað. Útlendingastofnun hefur því haft það til skoðunar að óska eftir því við lögreglu að kanna aðstæður vistráðinna að frumkvæði stofnunarinnar en það hefur tafist vegna Covid-faraldursins.

Heppilegra að ráða húshjálp

Þorsteinn segir að sá grunur læðist stundum að starfsfólki stofnunarinnar að vistráðnir séu að vinna meira en heimilt er og að þá sé tilgangurinn að hafa einhver konar ódýra heimilishjálp sem sé algjörlega á skjön við markmið vistráðningarinnar. „Vistráðning er einhverskonar menningarskipti og markmiðið er að vistráðnir kynnist landi og þjóð í fríu húsnæði og uppihaldi gegn því að hjálpa til inni á heimilinu“ segir Þorsteinn.

Að hans sögn hefur reglulega komið fram gagnrýni á vistráðningarleyfi bæði innan og utan kerfisins. „Bent hefur verið á hættu á félagslegu undirboði, skort á eftirliti og það að aðbúnaður geti verið afar misjafn. Það er líka ljóst að í einhverjum tilvikum þá hefur tilgangur með komu til landsins á svona leyfi ekki verið í samræmi við tilganginn með vistráðningu. Ef að fólk er í leit að húshjálp þá væri ef til vill heppilegra að ráða einstaklinga í fullt starf sem slíka með öllum réttindum sem því fylgir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“