Engin Covid smit greindust í gær hér á landi, hvorki innanlands né á landamærunum. Þykja þetta mikil gleðitíðindi og í takt við væntingar fólks um að verulega sé að draga úr faraldrinum í kjölfar bólusetninga.
Í gær voru miklar afléttingar tilkynntar sem taka eiga gildi í þrepum næstu vikur. Á þriðjudaginn verður grímuskylda svo til aflögð nema í undantekningartilfellum. Þá verður skyldudvöl í farsóttarhúsi stjórnvalda við komu frá tilteknum löndum aflögð í lok þessa mánaðar, en lögin sem heimiluðu nauðungarvistunina gilda út júní og var gert ráð fyrir því að þau yrðu rekin út þann gildistíma, hið minnsta.
Ljóst er að tölurnar þykja mikil gleðitíðindi í herbúðum almannavarna, því í tilkynningu þeirra til fjölmiðla stóð einfaldlega:
Gleðilegan Eurovisiondag gott fólk. Það er óskandi að Daði og Gagnamagnið fái fleiri stig en Covidstig/tölur dagsins eru. Gleðidagur í dag eða núll á línuna.
Blaðamaður DV tekur undir það.