Ríkisstjórnin fundaði í morgun til að ræða afléttingar á sóttvarnarráðstöfunum. Á meðal þess sem var ákveðið var að afnema skyldudvöl á sóttvarnarhóteli fyrir þá sem koma hingað til landsins frá áhættusvæði.
Stjórnarráðið greindi frá þessu í tilkynningu sem send var út fyrr í dag. Reglugerðin um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamærin fellur þó ekki strax úr gildi en hún var framlengd til 15. júní. Þann 1. júní mun hins vegar ákvæðið sem varðar sóttvarnarhótelin.
„Það er gert vegna þess að nýgengi smita á landamærum hefur farið stöðugt lækkandi frá því að skyldudvöl á sóttvarnahúsi tók gildi,“ segir í tilkynningunni. „Þá hefur Evrópuríkjum fækkað á lista yfir hááhættusvæði. Notkun sóttvarnahúsa verður því færð í fyrra horf, það er fyrir einstaklinga sem gert er að sæta sóttkví og eiga ekki samastað á Íslandi eða geta af öðrum sökum ekki eða vilja ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum.“
Þeir sem ekki hafa verið bólusettir þurfa ennþá að fara í tvöfalda skimun og vera í sóttkví á milli skimana, það er að segja í fimm daga. Bann við ónauðsynlegum ferðalögum frá skilgreindum hááhættusvæðum fellur líka úr gildi og litakóðunarkerfi sem átti að meta áhættu ferðalaga verður ekki tekið til notkunar.
„Það er gert þar sem nú er stefnt að því að aflétta hraðar aðgerðum á landamærum gagnvart öllum löndum, óháð stöðu faraldurs í þeim, en áður var talið unnt þar sem fjöldi bólusettra eykst hröðum skrefum. Við slíkar aðstæður er enginn ávinningur í því að taka upp litakóðakerfi í skamman tíma. Stefnt er að því að hraðpróf verði notuð í stað PCR-prófa í meiri mæli vegna farar úr landi, hvort sem þar eru Íslendingar sem áætla ferðalög erlendis eða erlendir ferðamenn sem hafa dvalið á Íslandi.“