fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fréttir

PLAY slær frá sér vegna yfirlýsinga ASÍ – Sjáðu launin sem þeir ætla að greiða flugþjónum um borð

Máni Snær Þorláksson
Föstudaginn 21. maí 2021 13:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flugfélagið PLAY sendi í dag frá sér yfirlýsingu vegna „alvarleika ásakana“ ASÍ varðandi laun hjá starfsmönnum flugfélagsins.

Ásakanir ASÍ snérust um að laun hjá starfsmönnum PLAY væru mun lægri en launin sem Icelandair borgar sínum starfsmönnum. Í yfirlýsingu PLAY segir flugfélagið að ASÍ hafi farið með rangt mál og að félagið hafi þegar dregið í land með flestar ásakanir sínar.

„ASÍ hefur þegar dregið í land með flestar ásakanir sínar sem hafa verið hraktar með sjálfstæðri vinnu fjölmiðla, meðal annars Viðskiptablaðsins sem hefur einnig undir höndum kjarasamning Flugfreyjufélag Íslands, sem er aðili að ASÍ. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins og í yfirlýsingu PLAY fyrr í vikunni er búið að sýna fram á eftirfarandi; PLAY borgar ekki lægstu laun í landinu eins og ASÍ segir (ASÍ sagði að launin væru 260 þúsund í viðtali við Spegilinn á RÚV), lægstu grunnlaun flugliða, án vinnuframlags og aukagreiðslna eru um 350 þúsund,“ segir í yfirlýsingunni.

Enn fremur segja stjórnendur að 350 þúsund krónurnar verði laun þeirra allra lægst launuðu um borð í vélum PLAY. Sömu laun hjá Icelandair eru þar sögð vera 306 þúsund. Þessi sömu grunnlaun hjá reyndum flugfreyjum og þjónum verða allt að 450 þúsund. Taka þeir þá fram að þetta séu laun án vinnuframlags.

Þá segir PLAY að launatengdar greiðslur PLAY séu samkvæmt lögum en ASÍ hefur haldið öðru fram. „ASÍ ber ítrekað grunnlaun flugliða PLAY saman við heildarlaun flugliða Icelandair. Grunnlaun PLAY eru hinsvegar hærri eins og kom fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins (grunnlaun samkvæmt kjarasamningi Flugfreyjufélagsins sem á aðild að ASÍ eru um 210 þúsund). Heildarlaun Icelandair fyrir flugliða eru hinsvegar hærri en hjá PLAY, það er rétt og hefur PLAY aldrei haldið öðru fram. ASÍ hefur haldið fram að launatengdar greiðslur PLAY séu ekki samkvæmt lögum, það er rangt og hefur alfarið verið hrakið í yfirlýsingu PLAY og sjálfstæðri umfjöllun Viðskiptablaðsins.“

PLAY fer þá yfir það sem þeim finnst vera aðalatriðið. „Aðalatriðið er þetta, kjarasamningurinn við Íslenska flugstéttafélagið er í takt við almennan vinnumarkað og skilar góðum launum til starfsmanna þótt almennur launakostnaður fyrirtækisins sé lægri vegna hagræðingar í störfum flugliða,“ segir í yfirlýsingunnni.

Hægt er að lesa yfirlýsinguna í heild sinni hér fyrir neðan: 

„Skemmdarverkastarfsemi ASÍ byggir á endalausum rangfærslum
Vegna mjög alvarlegra en innistæðulausra ásakana ASÍ vill PLAY koma eftirfarandi á framfæri.

ASÍ hefur þegar dregið í land með flestar ásakanir sínar sem hafa verið hraktar með sjálfstæðri vinnu fjölmiðla, m.a. Viðskiptablaðsins sem hefur einnig undir höndum kjarasamning Flugfreyjufélag Íslands, sem er aðili að ASÍ. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins og í yfirlýsingu PLAY fyrr í vikunni er búið að sýna fram á eftirfarandi; PLAY borgar ekki lægstu laun í landinu eins og ASÍ segir (ASÍ sagði að launin væru 260 þúsund í viðtali við Spegilinn á RÚV), lægstu grunnlaun flugliða, án vinnuframlags og aukagreiðslna eru um 350 þúsund. Íslenska flugstéttafélagið er 7 ára gamalt félag, stofnað áður en PLAY varð til og var það félag einnig með samninga við WOW. ASÍ ber ítrekað grunnlaun flugliða PLAY saman við heildarlaun flugliða Icelandair. Grunnlaun PLAY eru hinsvegar hærri eins og kom fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins (grunnlaun samkvæmt kjarasamningi Flugfreyjufélagsins sem á aðild að ASÍ eru um 210 þúsund). Heildarlaun Icelandair fyrir flugliða eru hinsvegar hærri en hjá PLAY, það er rétt og hefur PLAY aldrei haldið öðru fram. ASÍ hefur haldið fram að launatengdar greiðslur PLAY séu ekki samkvæmt lögum, það er rangt og hefur alfarið verið hrakið í yfirlýsingu PLAY og sjálfstæðri umfjöllun Viðskiptablaðsins.

Aðalatriðið er þetta, kjarasamningurinn við Íslenska flugstéttafélagið er í takt við almennan vinnumarkað og skilar góðum launum til starfsmanna þótt almennur launakostnaður fyrirtækisins sé lægri vegna hagræðingar í störfum flugliða.

Launaliðir PLAY stóðust áreiðanleikakönnun fagfjárfesta og lífeyrissjóða og eru sannarlega ekki undir lágmarkslaunum
ASÍ hefur í vikunni gert grófa aðför að lágjaldaflugfélaginu PLAY sem er að hefja starfsemi. PLAY er stolt af því að vinna eftir íslenskum kjarasamningum enda íslenskt fyrirtæki sem er stofnað til þess að færa Íslendingum lægri flugfargjöld og efla íslenska ferðaþjónustu. Félagið skapar hundruð nýrra starfa á íslandi og þeir starfsmenn munu greiða sína skatta og gjöld á Íslandi auk þess sem önnur áhrif á íslenskt efnahagslíf verða verulega jákvæð og umtalsverð. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess nú um stundir eins og ritstjóri Markaðarins nefnir í leiðara sínum í Fréttablaðinu í dag.

Félagið lauk nýverið hlutafjárútboði þar sem breiður hópur fagfjárfesta fjárfesti  um 6 milljarða króna í félaginu. Þessi fjárfesting var gerð í kjölfarið á faglegri áreiðanleikakönnun þar sem öll aðalatriði rekstursins voru könnuð gaumgæfilega eins og vera ber í svona stórum verkefnum. Þar með talið voru kjarasamningar enda var það algjörlega skýrt af hálfu allra þessara aðila að þau mál þyrftu að vera fullkomlega í takt við lög og reglur. Þessi atriði voru því sérstaklega rannsökuð af sérfræðingum í kjaramálum.

Lágmarkslaun lægsta taxta flugliða PLAY eru um 350 þúsund krónur, án vinnuframlags – heildartekjur nýráðinna um 500 þúsund
Kjarasamningur sá sem Íslenska flugstéttafélagið gerði upprunalega við PLAY tók breytingum í kjölfar þessarar vinnu enda voru gerðir svokallaðir Lífskjarasamningar í millitíðinni sem fólu í sér talsverðar launahækkanir. Allra lægstu grunnlaunaflokkum þess samnings sem PLAY gerði við Íslenska flugstéttafélagið (ÍFF) var breytt til að mæta Lífskjarasamningunum með þeim hætti að greiðslur sem áður voru breytilegar voru gerðar fastar og tryggðar. Sem dæmi þá fær flugliði greidda breytilega þóknun af sölu veitinga og varnings um borð ofan á fastan grunnlaunataxta. Þessar greiðslur eru tryggðar hjá PLAY. Flugliði hjá fyrirtækinu fær að lágmarki 34 þúsund krónur á mánuði og oftast meira ef salan er hærri. Sama má segja með akstursgreiðslu, hún er tryggð að upphæð 51 þúsund krónur. Þannig mynda þessar greiðslur föst laun sem breytast ekkert þó að starfsmaður fari í fæðingarorlof, veikindaorlof eða annað slíkt. Þannig eru lágmarkslaun á lægsta taxta PLAY 350 þúsund krónur og halda ber til haga að hér er verið að taka dæmi um allra lægstu grunnlaun án vinnuframlags fyrir flugliða sem kemur alveg óreyndur að starfinu. Fyrir reyndan aðila geta þessi föstu laun verið allt að 450 þúsund krónur, án vinnuframlags.

Ofan á þetta bætast ýmsar aðrar greiðslur sem verða til þess að mánaðarleg laun starfsmanna PLAY, reyndra sem óreyndra,  eru algerlega samkeppnishæf í íslensku samfélagi þó að þau séu á sama tíma miklu hærri en gengur og gerist hjá þeim erlendum flugfélögum sem einnig eru að fljúga til Íslands. Í tilfelli hins nýja og óreynda starfsmanns eru heildartekjur um 500 þúsund í meðalmánuði.

ASÍ ber saman epli og appelsínur en hefur þegar dregið alvarlegustu ásakanir sínar til baka
Þessi aðför ASÍ hófst með þeim skilaboðum að PLAY væri að greiða laun sem ekki hefðu sést áður á Íslandi, væru langt undir lágmarkslaunum og jafnvel undir atvinnuleysisbótum í landinu. ASÍ brást við með þeim hætti að beina þeim tilmælum til nær allra launþega í landinu að þetta fyrirtæki ætti að sniðganga. Því skyldi útskúfað.

Á sama tíma og þessi yfirlýsing ASÍ birtist þá birti Viðskiptablaðið greiningu á samanburði fastra launa PLAY og launa Icelandair sem blaðið kvaðst hafa gögn um. Sá samanburður var PLAY í hag þó að fyrirtækið hafi ekki sett þennan samanburð fram sjálft enda hefur PLAY engin gögn eða vitneskju um smáatriði í kjarasamningi þeim sem Icelandair byggir á. Slíkir samningar hafa alltaf verið mikið trúnaðarmál á milli samningsaðila, þangað til nú. Þar kom þetta skýrt fram og hér er tilvitnun; „Lægstu föstu laun PLAY eru rúm 350 þúsund, samanborið við 307 þúsund hjá Icelandair.“ Hér eru appelsínur og appelsínur bornar saman. Enn fremur kom fram að grunnlaun þau sem ASÍ vitnar í hjá PLAY (krónur 266.500) eru samkvæmt viðskiptablaðinu krónur 210.115 hjá Icelandair, og þetta er bein tilvitnun; „samkvæmt launatöflu í kjarasamningi Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) við Icelandair nema lægstu grunnlaun flugliða 210.115 krónum, það er 56.385 krónum minna en grunnlaun flugliða PLAY.“ Hér mætti segja að borin séu saman epli og epli. ASÍ heldur hinsvegar ítrekað fram rangfærslum í fjölmiðlum og ber saman föst laun Icelandair við grunnlaun PLAY. Þau bera saman appelsínur og epli. Ljóst er að bæði félögin greiða laun sem eru yfir lágmarkslaununum með því t.d. að tryggja fastar greiðslur eins og sölutryggingu og akstursgreiðslur.

ASÍ vill ekki funda með PLAY, ASÍ vill knésetja PLAY
PLAY tók til varna og benti á að ASÍ hefði ekki sýnt neinn raunverulegan vilja til að kynna sér málið, enda hafi ekki verið leitað til PLAYÍFF um útskýringar áður en félagsmenn ASÍ voru hvattir til að sniðganga það. Það var skotið fyrst og spurt svo sem er afar ábyrgðarlaust við þær aðstæður sem ríkja í samfélaginu.

Eftir að PLAY kom með sýnar útskýringar og birti upplýsingar úr kjarasamningi sínum þá hefur árás ASÍ breyst mikið og í mikilvægum atriðum því nú er áherslan á að laun hjá PLAY séu lægri en hjá Icelandair en ekki að þau séu lægri en lágmarkslaun í landinu eins og lagt var upp með fyrst og er rangt.

Fyrst eru á annað hundrað þúsund manns hvattir til að sniðganga nýtt fyrirtæki vegna meintra undirboða og háttsemi sem ekkert okkar vill sjá í okkar samfélagi. Málið er sett fram af ASÍ með einföldum áróðri í þeim tilgangi að sefja fólk til fylgis við markmið ASÍ. Þegar ásakanir ASÍ eru afsannaðar þá eru hin meintu sakarefni allt í einu farin að snúast um samanburð á flókinni uppbyggingu kjarasamninga flugstétta við annað fyrirtæki sem er ekki í samanburðarhæfum rekstri við PLAY en ekki hvort hvort PLAY sé að greiða laun undir lágmarkslaunum. Augljóst er að ASÍ hefur áttað sig á að þau höfðu rangt fyrir sér, en vilja ekki gangast við því.

Þetta eru vinnubrögð sem eru ekki samboðin samfélagi okkar og það er sorglegt að horfa upp á ASÍ misnota vald sitt með þessum hætti. Best væri að ASÍ ræddi þessi mál beint við þá aðila sem að málinu koma í stað þess að snúa hlutina     úr samhengi í fjölmiðlum og setja fram með hætti sem forsvarmönnum þess ætti að vera fullljóst að eru ekki réttir enda hafa þeir ekki gert neitt í því að kynna sér þá. “

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Netverjar bregðast við yfirlýsingu Kristrúnar – „Ég hef kynnst mörgum slíkum í gegnum tíðina“

Netverjar bregðast við yfirlýsingu Kristrúnar – „Ég hef kynnst mörgum slíkum í gegnum tíðina“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

 Fiskikóngurinn segir að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að gera þetta til að „skíta ekki upp á bak“ í komandi kosningum

 Fiskikóngurinn segir að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að gera þetta til að „skíta ekki upp á bak“ í komandi kosningum
Fréttir
Í gær

Salka Sól fokvond út í Bjarna – „Honum er bara drull“

Salka Sól fokvond út í Bjarna – „Honum er bara drull“
Fréttir
Í gær

Fyrirtæki krafði Oddfellowregluna um á annan tug milljóna króna án nokkurs samnings

Fyrirtæki krafði Oddfellowregluna um á annan tug milljóna króna án nokkurs samnings