Í afhjúpun Stundarinnar um skæruliðadeild Samherja kemur fram að útsendarar fyrirtækisins hafi fylgst með rithöfundinum Hallgrími Helgasyni eftir að sá fyrrnefndi skrifaði afar gagnrýna grein um fyrirtækið og framferði þess.
Í greininni eru birt tölvupóstsamskipti Þorbjörns Þórðarsonar, sem stýrði almannatengslum fyrir hönd Samherja, við Pál Steingrímsson, skipstjóra og einn helsta talsmann Samherja út á við. Þar eru þeir að velta fram hugmyndum þess síðarnefnda að svara grein Hallgríms með því að spyrja hvort hann hafi „farið í neðstu skúffuna og fundið samviskuna sína eins og Jóhannes, og ætli að skila öllum listamannalaununum sem hann hefur þegið í gegnum árin, fengið samviskubit eftir að hafa bónað Tesluna sína og hlustað á fréttir af rafmagnsleysinu á landsbyggðinni um leið, batnandi mönnum er best að lifa.“
Fram kemur þó að Páll hafi átt eftir að fá staðfest að Hallgrímur ætti Tesluna en af því varð aldrei. Nágranni Hallgríms var nefnilega eigandinn.
„Ég á góða granna sem eiga Teslu. Við búum í tvíbýlishúsi og deilum innkeyrslu,“ segir Hallgrímur.
Hann segist ekki geta sagt að þessar aðferðir hafi komið honum í opna skjöldu en að sjá það að grunurinn sé á rökum reistur sé hræðileg upplifun. „Stundum hefur hvarflað að manni að svona aðferðir væri í gangi. En maður sveiflast á milli þess að saka sjálfan sig um að vera ofsóknarbrjálaður með samsæriskenningar en svo fær maður þetta staðfest sem er náttúrulega alveg rosalegt,“ segir Hallgrímur.
Hann segir það skuggalega tilfinningu að frétta af því að fólk sé að fylgjast með sér og njósna um heimili hans. „Ekki síst af því að þetta er gert af stærsta fyrirtæki landsins. Þetta eru gríðarlega valdamiklir einstaklingar sem eiga góða vini í ríkisstjórn Íslands þannig að manni finnst þetta alveg hræðilegt.“
Hann segir þessa starfshætti lýsi brengluðu hugarástandi. „Maður verður oft var við þetta hugarfar að listamenn eigi að lepja dauðann úr skel og missa málfrelsið um leið og þeir fái tímabundin laun frá ríkinu. Ég veit ekki um aðra ríkisstarfsmenn sem þurfa að sætta sig við það,“ segir Hallgrímur.
Hann segir að þetta sé augljós tilraun valdamanna til ritskoðunar og þetta sé enn eitt dæmi þess að bláa höndin lifi þó að sú fyrri hafi verið höggvin af. „Það vex alltaf ný blá hönd í staðinn. Þetta er í raun eilíft handaband blárra handa,“ segir Hallgrímur.
Hallgrímur þekkir vel til á Norðurlandi og segir það nöturlega upplifun að reyna að ræða málefni Samherja nyrðra. „Þeir eiga einfaldlega mikið í okkar þjóðfélagi og staða þeirra er sterk. Fyrir norðan er þetta eins og sértrúarsöfnuður og ef maður imprar á málefnum Samherja í heita pottinum þá rekst maður á vegg. Fólk fyrir norðan mun aldrei sé fyrirtækið og eigendur þess réttu ljósi,“ segir Hallgrímur.
Aðspurður hvort að njósnirnar muni verða til þess að hann veigri sér við að fjárfesta í fínum bíl þá hlær Hallgrímur og segir: „Mér finnst nú að Samherji skuldi mér nýja Teslu. Ég bíð bara eftir bílnum í innkeyrsluna.“