Edda Falak, viðskiptafræðingur og áhrifavaldur, segir að þjóðþekktur tónlistarmaður hafi nauðgað henni þegar hún var aðeins 17 ára gömul. Hún hafi þó ekki gert sér grein fyrir því að umrætt atvik hafi verið kynferðisofbeldi fyrr en síðar.
Hún stígur fram í hlaðvarpi Berglindar Guðmundsdóttur, Dagmál hjá mbl.is.
Ofbeldi átti sér stað þegar Edda var 17 ára gömul en hún er 29 ára í dag.
„Á þeim tíma gerði ég mér ekki grein fyrir því að þetta var í rauninni ofbeldi, nauðgun, bara vegna þess að samtalið í samfélaginu var öðruvísi fyrir 10 árum. Það var enn þessi skrímslavæðing á gerendur, sá sem nauðgar er einhver ógeðsleg manneskja út í bæ en ekki frægi tónlistarmaðurinn, þingmaðurinn, vinur þinn eða bekkjarbróðir.“
Hún ákvað að stíga fram í metoo byltingunni sem gengur nú yfir Ísland í kjölfar máls Sölva Tryggvasonar fjölmiðlamanns.
Edda lýsir því að hún hafi sagt nei við umræddan tónlistarmann en hann hafi ekki tekið það í mál.
„Það að eftir að ég segi nei að þrýsta á mig áfram er náttúrulega bara ofbeldi,“ segir Edda og bætir því við að hún telji að þjóðþekktir einstaklingar nýti sér í einhverjum tilvikum stöðu sína í þjóðfélaginu til að ná fram vilja sínum, sérstaklega gagnvart ungum stelpum.
„Ég leit upp til þessa manns, fannst hann flottur, og hann var tónlistarmaður og hugsaði: Af hverju vill hann mig? Ég í rauninni leyfi honum að gera það sem hann vildi því mér fannst hann svo flottur og það er þetta sem sat í mér og mér finnst mikilvægt að ungar stelpur viti að þegar þú segir nei þá er það bara þannig,“ eða með öðrum orðum að nei þýði nei og fólk verði að virða neitunina en ekki reyna með þrýstingi og nöldri að ná sínu fram þrátt fyrir skýra neitun.
Edda segir líka að það geti ekki farið framhjá nokkrum þegar aðilinn sem þú ert að eiga samfarir við er farinn að finna til. Hún hafi fundið fyrir sársauka umrætt sinn og stífnað upp.
„Ég meiddi mig og þú sérð það alveg þegar einhver meiðir sig, þegar einhver stífnar upp, á þessum tíma segir hann við mig þegar ég er bara stíf : Slappaðu bara aðeins af eða slakaðu aðeins á,“ segir Edda og bætir við að í slíkum aðstæðum viti menn alveg hvað þeir eru að gera.
Hins vegar segir Edda að ofbeldið hafi ekki haft mikil áhrif á hana og að vissu leyti sé hún fegin því að það hafi tekið hana þetta langan tíma að átta sig á því að hún væri þolandi nauðgunar. Hún hafi verið orðin fullorðnari og sterkari einstaklingur þegar hún áttaði sig og betur í stakk búin að takast á við reynsluna.
Hún steig fyrst fram á Twitter og segir að í kjölfarið hafi fleiri en tíu konur haft samband við hana og greint frá því að sami þjóðþekkti tónlistarmaður hafi brotið gegn þeim líka. Eins hafi hún fengið á sjötta hundrað skilaboð frá konum sem margar hafa líka lent í ofbeldi og fannst Eddu sláandi að sjá það svona svart á hvítu hversu algengt það er að konur á Íslandi hafi orðið þolendur ofbeldis.
Varðandi geranda hennar þá nafngreinir hún það ekki, enda veit hún ekki til þess að hann hafi nokkurn tímann verið kærður. En hún reiknar fastlega með því að hann hafi séð færslu hennar á Twitter og að hann viti að Edda er að tala um hann. Þegar þolendur eru ungar konur er meira en að segja það að kæra og það séu ekki allir sem treysti sér í þá þungu vegferð. Það er líka þekkt staðreynd að fæst kynferðisbrot eru kærð og enn færri enda með sakfellingu.
Edda vildi stíga fram og taka þátt í byltingunni og til að benda ungum konum í dag á þá staðreynd að það eru ekki bara einhver skrímsli sem nauðga heldur stundum þjóðþekktur einstaklingur sem margir dá.
Hún tekur þó fram að það sé engin skylda á þolendum að segja sínar sögur. Allir takist á við sín áföll með ólíkum hætti og fyrir því þarf að bera virðingu.
„Það ber ekkert öllum skylda til að tala um ofbeldið sitt. Sumir vilja bara lifa, anda og borða og bara njóta og eru kannski búnir að vinna sínu og það er ekki þeirra skylda að berjst eða tala um þetta eða breyta sögunni sinni í einhverja hetjusögu.“
Edda segir umræðuna um kynferðisofbeldi langt komna miðað við hvernig hún var þegar brotið var gegn Eddu fyrir tíu árum en umræðan þurfi að fara enn lengra. Bæði konur og karlmenn þurfi að líta í eigin barm og meta hvort þau hafi gengið yfir mörk í kynferðislegum samskiptum við aðra. Líklega hafi flestir gert það einhvern tímann.