Drífa Snædal, forseti ASÍ, hvatti í gær meðlimi sambandsins til að sniðganga Play vegna þess að fyrirtækið ætlaði að undirbjóða laun starfsfólks síns til að halda flugfargjöldum í lágmarki.
Birgir Jónsson, forstjóri Play, svaraði þessum ásökunum ASÍ með yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem segir meðal annars að áróður ASÍ væri sorglegur og leiðréttir misskilning ASÍ varðandi launagreiðslur Play.
Í nýrri auglýsingu Play sem birtist á netinu í dag má sjá merki Play og orðin „Drífa sig út! Með leikreglurnar á hreinu“, en það verður að teljast skot á Drífu Snædal.
Fyrsta flug Play er dagsett 24. júní og verður flogið til London ef marka má orð Birgis í Brennslunni á FM957 í morgun. Hægt er að fljúga með flugfélaginu til Alicante, Barcelona, Berlín, Kaupmannahafnar, London, París og Tenerife.