Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fréttablaðið fjallaði um málið um síðustu helgi en í þeirri umfjöllun kom fram að á meðan Linda var í sambandi með umræddum manni í um tvö ár hafi hann beitt hana bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi. Í samtali við Fréttablaðið sagði Linda að niðurstaða ríkissaksóknara væri jákvæð en aðeins eitt skref af mörgum í rétta átt. „Fyrir þolanda, að þurfa að ganga í gegnum allt þetta ferli finnst mér sláandi, sú ákvörðun ein og sér að kæra er nógu erfið,“ er haft eftir Lindu.
Kæra Lindu snýr að atviki frá árinu 2015. Hún segir að þáverandi sambýlismaður hennar hafi þá ráðist á sig. Eftir að hann kom heim eftir að hafa verið úti að skemmta sér komst hún að því að hann hefði haldið framhjá henni. Hún vakti hann morguninn eftir, sleit sambandinu og rak hann út. Hún segir að hann hafi þá kýlt hana og slegið ítrekað og hrint henni í gólfið og þurfti hún að fara á bráðamóttöku í kjölfarið.
Samkvæmt áverkavottorði var Linda með átta áverka á líkamanum, þar á meðal var hún viðbeinsbrotin. Hún lagði fram kæru í fyrra en hún segist ekki hafa áttað sig almennilega á hverju hún hafði orðið fyrir, fyrr en hún fór að opna á málið.
Í febrúar ákvað lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu að hætta rannsókn málsins þar sem í því stæðu orð gegn orði og langt væri liðið frá atburðinum. Maðurinn hafði þá neitað sök í skýrslutöku og hélt því fram að Linda hefði ráðist á sig og dottið.
Í ákvörðun ríkissaksóknara kemur fram að hann telji að rannsókn málsins sé ekki lokið og leggur hann því fyrir lögreglustjóra að taka málið til rannsóknar. Vísað er til þess að lögreglan hafi ekki óskað eftir myndum af áverkum Lindu þrátt fyrir að í áverkavottorði komi skýrt fram að lögreglan þyrfti aðeins að óska eftir þeim og að vitni, sem Linda tilgreindi, voru ekki kölluð í skýrslutöku.