Baldur Kristjánsson, fyrrverandi dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, lést þann 9. maí síðastiðliðinn, sjötugur að aldri.
Eftir Baldur liggja meðal annars merkar rannsóknir á uppeldi og stöðu barna á Norðurlöndum. Jón Atli Benediktsson háskólarektor ritaði eftirfarandi pistil í minni Baldurs á Facebook-síðu sína:
„Baldur Kristjánsson, fyrrverandi dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, lést 9. maí sl., sjötugur að aldri.
Baldur fæddist í Keflavík 6. mars 1951, en ólst að mestu upp á Egilsstöðum. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð og stundaði nám í sálfræði og uppeldisfræði við Gautaborgarháskóla, til BA-prófs 1977 og útskrifaðist klínískur barnasálfræðingur 1982. Baldur vann síðar að fræðistörfum við Lärarhögskolan i Stokkhólmi og lauk þaðan doktorsgráðu 2001.
Baldur starfaði sem kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og skólasálfræðingur við Fræðsluskrifstofu Reykjanesumdæmis á níunda áratugnum, að loknu námi. Í framhaldinu vann hann að Basun-rannsókninni svonefndu, sem var rannsókn um „Barnæsku og samfélagsumbreytingar á Norðurlöndum“. Árið 1999 hóf Baldur kennslu við Kennaraháskóla Íslands, sem síðar varð Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann var lektor í uppeldis- og þroskasálfræði og síðar dósent, þar til hann varð að hætta störfum vegna veikinda. Baldur var virkur í fræðistörfum og eftir hann liggur fjöldi greina. Rannsóknir hans sneru einkum að uppeldi og stöðu barna á Norðurlöndum, svo og skólamenningu og námsáhuga barna.
Fyrir hönd Háskóla Íslands þakka ég störf Baldurs Kristjánssonar í þágu skólans og votta aðstandendum hans innilega samúð.“