Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, lögmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, greinir frá kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir sex ára að aldri og afleiðingum þess fyrir líf hennar æ síðan. Guðfinna birtir áhrifaríkan pistil um þetta á Facebook-síðu sinni sem hún gaf DV góðfúslegt leyfi til að endurbirta.
Maðurinn sem beitti Guðfinnu ofbeldi þegar hún var aðeins sex ára gömul bjó í húsi við hliðina á vinkonum hennar. Þetta var í mikilli rigningu og maðurinn kippti henni eldsnöggt rennblautri inn í húsið.
Guðfinna byrgði áfallið innra með sér, var í afneitun og byggði upp þykkan skráp. Á fullorðinsárum hjálpaði áfengi til að deyfa sársaukann, það var leið hennar til að lifa af. Eftir aldamótin leitaði hún sér loks hjálpar og var greind með áfallastreituröskun.
Hún segist ekki vita hvernig líf hennar hefði þróast ef hún hefði leitað sér hjálpar fyrr. Hún biðlar til þolenda kynferðisofbeldis að leita sér hjálpar. Pistillinn er eftirfarandi:
„Út af umræðu síðustu daga: Ég er 52 ára, móðir og amma. Fyrir um 45 árum síðan var ég beitt kynferðisofbeldi af manni sem bjó í húsi við hliðina á vinkonum mínum sem eru systur. Ég ætlaði í heimsókn til þeirra en þær voru ekki heima svo ég fór og spurði eftir annarri vinkonu minni í næsta húsi. Systir hennar kom til dyra og sagði að hún væri ekki heima. Þegar hún ætlaði að loka dyrunum skaust köttur út og það gerði úrhelli. Ég áttaði mig á því seinna af hverju mér er svona illa við ketti enda er það síðasta minningin sem ég á áður en bíll kom keyrandi upp að mér, á malarvegi, tók u-beygju og maður stökk út og kippti mér rennblautri inn í húsið sem er á milli húsa vinkvenna minna
Í áratugi álasaði ég sjálfri mér, 6 ára, að hafa ekki annað hvort stökkið út um glugga rishæð eða náð í hníf og drepið manninn.
Maðurinn bjó í húsi gamallar konu og leigði af henni risíbúð. Ég komst að því seinna að gamla konan, sem leigði honum íbúðina, hafði skömmu seinna komið að honum í kjallaranum þar sem hann var búinn að afklæða strák sem ég þekki. Hún náði í pabba hans sem kallaði á lögreglu og manninum var hent út úr húsinu. Á þessum árum var ekkert gert í svona málum og þau ekki rædd.
Sumarið sem ég var 12 ára fór ég að muna eftir því sem gerðist. Ég skyldi það engan veginn fyrst og hélt að þetta væri martröð en skyldi ekki hvar ég hefði átt að hafa séð slíkt. Ég átti erfitt með svefn því ég sá atburðinn fyrir mér um leið og ég lagðist í rúmið, eins og það væri kveikt á videospólu sem væri á replay. Ég fór að verða mjög myrkfælin og leitaði í öllum skápum, undir öllum rúmum og sofnaði með kveikt ljós. Ef það var enginn heima fór ég út og beið.
Ég hafði aldrei heyrt um kynferðisofbeldi þegar umræðan byrjaði skömmu eftir að ég fór að muna. Ég var í algjörri afneitun og byggði upp þykkan skráp. Svo fór ég að drekka. Það bjargaði öllu. Ef ég drakk þá hvarf þessi mynd af litlu stelpunni sem spólaðist endalaust þegar ég lagðist til svefns. Stelpunni sem ég gat ekki bjargað. Ef ég drakk og það mikið og sagði eitthvað eða gerði eitthvað sem var slæmt þá var það samt alltaf betra en að sjá myndina á replay. Í þynnkunni fékk ég móral sem beindi hugsunum að öðru en að sjá myndina fyrir mér. Þess vegna var gott að vera með móral. Eftir á að hyggja bjargaði það mér. Ég fann leið til að lifa af.
Af tvennu illu var betra að vera með móral, ganga of langt, vera dónaleg, óþolandi og með stæla en að sjá helvítis myndina spólast aftur og aftur af litlu stelpunni regnblautri á nærfötunum í risinu sem hafði ekki hugrekki til að stökkva út um gluggann eða drepa manninn. Henni var ég reið í áratugi.
Ég var í afneitun í áratugi. Gat ekki horfst í augu við raunveruleikann. Ég var ekki fórnarlamb. Ég var komin með þykkari skráp en Látrabjarg.
Upp úr aldamótum fann ég að ég gat ekki meir. Ég gerði nokkrar tilraunir til að leita mér hjálpar en ég var ekki tilbúin. Það var síðan þegar konurnar afhjúpuði Karl Vigni í Kastljósi sem ég brotnaði saman og leitaði mér hjálpar. Þeim verð ég alltaf þakklát. Karl Vignir er ekki maðurinn sem beitti mig ofbeldi.
Ég var greind með áfallastreituröskun sem ég vann mig út úr með góðri hjálp. Mikið vildi ég óska þess að ég hefði gert það fyrr og verið tilbúin að opna mig og leita mér hjálpar. Kannski er ég svona hörð út af því sem gerðist, kannski ekki. Ég mun aldrei vita það, en ég veit að líf mitt hefði orðið öðruvísi ef ég hefði ekki lent í þessu. Það hefði einnig orðið öðruvísi ef ég hefði unnið mig út úr þessu fyrr. Svo í guðanna bænum leitið ykkur aðstoðar og vinnið ykkur út úr þessu helvíti.
Það er enginn sem ekki hefur lent í þessu sjálfur sem mun skilja ykkur og hvað afleiðingarnar eru miklar, hvorki fjölskylda ykkar, vinir, lögmenn, lögregla né dómarar. Fyrst þið komust af getið þið allt. Munið það og vinnið ykkur út úr þessi með aðstoð fagaðila sem hafa reynslu og þekkingu af slíku ofbeldi og afleiðingum þess. Hættið að skammast ykkar. Það eru ofbeldismennirnir og þeir sem í meðvirkni og/eða heimsku styðja þá sem eiga að skammast sín. Það er ekkert flott við það eða siðferðislega rétt að vera í þeirra liði. Skömmin og ofbeldið er þeirra.“