fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fréttir

„Andlitslaus“ forstjóri ríkisstofnunar tjáir sig í ársskýrslum – Hvernig kemst hann upp með þetta?

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 19. maí 2021 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið hefur mætt á yfirmönnum ÁTVR undanfarin misseri. Sagt var frá því í vikunni að Íslendingar hefðu verslað meira við fyrirtækið en nokkru sinni áður í fyrra. Veltan skreið þá yfir 50 milljarða í fyrsta sinn í sögunni. Veltuaukningin kemur síður á óvart í ljósi þess að áfengissala á veitingastöðum og í fríhöfn hrundi á sama tímabili.

Ofan á þessa miklu ös bættist svo samkeppni úr óvæntri átt á síðustu vikum, en kaupmaðurinn Arnar Sigurðsson sem staðið hefur í innflutningi áfengra drykkja til landsins um árabil, tilkynnti nýverið að hann hefði opnað fyrir netsölu á víni í gegnum fyrirtæki sitt í Frakklandi. Þannig hafi honum tekist að komast hjá banni við smásölu áfengis hér á landi með því að reka erlenda netverslun með lager hér á landi. Arnar hefur þá jafnframt kvartað til neytendastofu yfir notkun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á nafninu „Vínbúðin.“ Segir hann að landslög taki fyrir að nefna fyrirtæki sín svo almennum nöfnum. Þá hefur hann einnig bent á að samkvæmt lögum um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, heitir verslunin einmitt það, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, og skortir stjórnendum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins því lagaheimild fyrir því að kalla sig eitthvað annað en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

Í vikunni snéru stjórnendur einokunarverslunarinnar svo vörn í sókn og sendu út tilkynningu um að von væri á kærum vegna málsins. Kom þar fram að stjórnendur ÁTVR væru nú að undirbúa lögbann á starfsemi félagsins hér á landi. „Starfseminni er beint gegn lögbundnum einkarétti Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis, sem hefur verið ein grunnstoða íslenskrar áfengisstefnu,“ sagði í tilkynningunni. Sjálfur hefur Arnar sagst hafa kannað lagagrundvöll fyrir starfsemi sinni ítarlega og ekki fundið nein hamlandi ákvæði þar. Þykir nú ólíklegt að ágreiningur Arnars og ÁTVR verði leystur öðruvísi en með aðkomu dómstóla.

Hamagangurinn í ÁTVR hefur þá jafnframt vakið athygli á stjórnendum og ábyrgðaraðilum ÁTVR og þá helst forstjóranum.

Forstjóri ÁTVR heitir Ívar J. Arndal og tók hann við stjórn fyrirtækisins haustið 2005. Ívar hefur síðan þá afar sjaldan komið fram fyrir hönd fyrirtækisins og virðist láta undirmenn sína sjá um samskipti við umheiminn. Meðalaldur frétta sem koma upp við einfalt „gúggl“ á Ívari er mörg ár en engin þeirra er viðtal við sjálfan manninn. Það litla sem eftir honum er haft í fréttum fortíðarinnar er haft upp úr texta sem hann skrifar sjálfur í ársskýrslu ÁTVR.

Mynd af Jóni Ívar, fengin að láni úr ársskýrslu ÁTVR.

Í hans stað hefur Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR staðið fjölmiðlavaktina undanfarin ár, og er hún er skráð tengiliður við fjölmiðla inni á heimasíðu fyrirtækisins.

Gísli Freyr Valdórsson, ráðgjafi hjá KOM ráðgjöf og ritstjóri Þjóðmála vakti athygli á þessu á Twitter í gær. Spurði hann hvernig Ívar hefur komist upp með að vera andlitslaus forstjóri svo árum skiptir?

Lögmaðurinn og fyrrum blaðamaðurinn Ingvar S. Birgisson rifjaði þá upp kynni sín af stjórnendum ÁTVR: „Þegar ég var blaðamaður neitaði hann alltaf að ræða við blaðamenn og vísaði til aðstoðarforstjóra. Ef hún var ekki við þá var engum fyrirspurnum svarað.“ Gísli, sem sjálfur starfaði sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu svaraði þá að þeir hefðu jafnframt mikið reynt að fá Ívar til þess að tjá sig, „en því var aldrei haggað.“

Samkvæmt heimildum DV er upplýsingaflæði innan úr skrifstofum ríkisstofnunarinnar ÁTVR, eða öllu heldur skortur þar á, reyndar alræmt. Herma þær heimildir að brösuglega hafi gengið fyrir til dæmis þingmenn að nálgast upplýsingar um sölutölur tóbaks og áfengis og hafa þeir oft þurft að bregða á það ráð að beina fyrirspurn til fjármálaráðherra í fyrirspurnatíma á Alþingi til þess að nálgast upplýsingar sem, þeir segja, ættu með réttu að liggja fyrir enda um opinbert fyrirtæki að ræða.

Þá er lítið minnst á forstjórann inni á heimasíðu fyrirtækisins, nema þá í ársskýrslunum áðurnefndu, auðvitað. Í nýjustu ársskýrslu ÁTVR sem er frá árinu 2019 kemur fram að laun og launatengd gjöld vegna forstjóra hafi numið 21,8 milljónum það árið. Það gerir rúmar 1,8 milljónir á mánuði, með launatengdum gjöldum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Þessu ætlar Donald Trump að breyta strax á fyrsta degi

Þessu ætlar Donald Trump að breyta strax á fyrsta degi
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Haukur afplánar 5 ára dóm og segist ranglega sakaður um tilraun til manndráps – „Af hverju er mér sleppt daginn eftir og ég labba frjáls í eitt ár?“

Haukur afplánar 5 ára dóm og segist ranglega sakaður um tilraun til manndráps – „Af hverju er mér sleppt daginn eftir og ég labba frjáls í eitt ár?“
Fréttir
Í gær

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti
Fréttir
Í gær

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á
Fréttir
Í gær

Læti í Loðmundarfirði vegna friðlýsingar – „Það eru persónulegar erjur manna á milli“

Læti í Loðmundarfirði vegna friðlýsingar – „Það eru persónulegar erjur manna á milli“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Erill á næturvaktinni – Eftirför, átök, innbrot í gám, slagsmál

Erill á næturvaktinni – Eftirför, átök, innbrot í gám, slagsmál
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sælukot kærir Heilbrigðiseftirlitið fyrir „hóflausa beitingu valds“ – Létu loka leikskólanum vegna músagangs

Sælukot kærir Heilbrigðiseftirlitið fyrir „hóflausa beitingu valds“ – Létu loka leikskólanum vegna músagangs
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári