Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að í vikunni fái um 12.000 manns bóluefni frá Pfizer og skiptast skammtarnir jafnt á fyrri og seinni bólusetningu. Um 1.500 manns fá bóluefni frá Jansen en aðeins þarf eina sprautu af því til að ljúka bólusetningu.
Fréttablaðið hefur eftir Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að bólusetningar hafi gengið vel og að í Laugardalshöll verði um 16.000 skammtar gefnir í vikunni.
Það hefur gengið hraðar að bólusetja karla en konur og má þar nefna að nú er búið að bólusetja alla karlmenn úr forgangshópi sjö en það eru karlmenn með undirliggjandi sjúkdóma og áhættuþætti vegna COVID-19. Ragnheiður sagði að ástæðan fyrir þessu sé að bóluefni AstraZeneca sé ekki gefið konum yngri en 55 ára. Konur, sem fengu fyrri skammtinn af bóluefni AstraZeneca, verður boðin seinni sprauta með bóluefni frá Pfizer en það hægir á bólusetningum hjá öðrum konum sem hefðu annars fengið bóluefni frá Pfizer.
„Endurbólusetningar taka svolítið stóran toll, það er yfirleitt helmingurinn af bólusetningunum sem við erum að vinna með,“ er haft eftir henni.
Hún sagði dæmi um að konur, sem hafi fengið eina sprautu af AstraZeneca, kvíði því að fá seinni skammt af öðru bóluefni.