Þau sem dvelja á sóttkvíarhótelinu þurfa sjálf að sjá til þess að herbergin séu þrifin. Kámugar hurðir, ryk og óþrifnaður blasti við einum gesti sem kom á hótelið til að vera þar í sóttkví. RÚV greindi frá en fréttastofunni barst myndband frá gestinum. Í myndbandinu má sjá herbergið sem fáir myndu líklega halda fram að væri hreint.
Gesturinn sem RÚV ræddi við segir að út um glugga herbergisins megi sjá reyk frá sígarettum en auk þess sé mikil reykingalykt á göngunum á hótelinu. Rauði krossinn hefur séð um að starfrækja sóttkvíarhótelin en samkvæmt RÚV hefur Rauði krossinn ekki fengið kvartanir frá gestum hótelsins vegna óþrifnaðar.