Smánaði útvarpsmaðurinn (og rithöfundurinn) Eiríkur Guðmundsson rithöfundinn Hallgrím Helgason og gerði lítið úr reynslu hans af því að vera þolandi kynferðisbrots? Töluverðar deilur hafa risið á Facebook-undanfarið vegna sex ára gamals útvarpspistils. Hallgrímur Helgason rithöfundur hefur rifjað upp skrifin í tilefni Metoo-byltingarinnar. Eiríkur er afar ósáttur við þá sneið og hefur boðað andsvör. Í innleggi sem hann hefur eytt sagði hann að harkalegur árekstur milli hans og Hallgríms sé óhjákvæmilegur.
Árið 2015 gaf Hallgrímur út sjálfævisögulega skáldsögu sem ber heitið „Sjóveikur í München“. Þar lýsir hann námsári sínu í þýsku borginni og greinir frá skelfilegu kynferðisbroti sem hann varð fyrir. Hinn aldni rithöfundur Guðbergur Bergsson birti eftir útgáfu bókarinnar rætinn pistil þar sem hann hæddist að frásögn Hallgríms.
Eiríkur Guðmundsson flutti í kjölfarið pistil á Rás 1 sem innihélt upplestur á pistli Guðbergs. Þetta upplifði Hallgrímur sem velþóknun Eiríks og endurtekningu á smánun Guðbergs á reynslu sinni. Segist Hallgrímur hafa langt niðri vegna málsins um tíma og hafa leitað aðstoðar hjá Stígamótum. Hann segist hafa ætlar að láta kyrrt liggja en honum hafi ofboðið er Eiríkur tók undanfarið að leggja orð í belg í Metoo-umræðunni og lýsa ofbeldi gegn konum sem hann þekki. Hallgrímur skrifaði eftirfarandi ádeilu og merkti Eírík við skrifin:
Að öðru leyti upplifði ég bara stuðning og pepp í samfélaginu.
Þegar hinsvegar viku síðar ég var á heimleið í bílnum og kveikti á Víðsjá hóf Eiríkur Guðmundsson þáttinn á því að lesa allan pistil Guðbergs, átrúnaðargoðs síns, og smjattaði á orðum hans líkt og hann hefði gaman af. Ég átti erfitt með að trúa því sem var að gerast. Stjórnandi helsta menningarþáttar Ríkisútvarpsins var að grínast með nauðgunina sem ég lenti í!
Þetta var áfall, þarna upplifði ég það sem margir brotaþolar lenda í, “secondary victimisation” heitir það á fræðimáli, þegar þolendur segja frá og verða fyrir aðkasti og spotti samfélagsins, (algengt á landsbyggðinni þegar stelpurnar segja frá og upplifa það í kjölfarið að þær séu hinn seki). Mér leið eins og nauðgunin hefði verið endurtekin og brotnaði saman, var þungur í margar vikur og endaði í tíma hjá Stígamótum, skref sem ég hefði reyndar átt að taka löngu fyrr, skref sem gerði mér mjög gott.“
Eiríkur hefur svarað ádeilunni undir rós en ljóst er að hann telur ásakanir Hallgríms vera ómaklegar og hann er reiður. Boðar hann svör sem mörgum muni mislíka. Eiríkur segir meðal annars:
„Nokkrum spjótum beint til mín síðustu daga hér á Face og raunar víðar, eins og þið hafið væntanlega séð. It’s the terror of knowing what this world is about, segi ég. Svo lengi lærir sem lifir. Meira síðar. Og ekki víst að allir verði neitt sérstaklega ánægðir með það.“
Í umræðum um málið segir hann:
„Ég er heiðarlegur við sjálfan mig og aðra, kæri Óðinn. Og geri ekkert annað en að læra af þér. En ég þoli ekki fals. Bara alls ekki. Ég er vel læs á fólk. Fólk sem er falskt, tala ekki við það. Og já meira sannarlega síðar.“
Þær Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Heiða B. Heiðarsdóttir eru á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Eirík harðlega fyrir útvarpspistilinn gamla en rithöfundurinn Hermann Stefánsson steig fram í gærkvöld með athyglisvert innlegg í umræðuna. Segir hann að minnið hafi svikið þá illilega sem lesa smánun úr úr þessum skrifum Eiríks, þar á meðal Hallgrím. Hermann skrifar:
„Minnið er kyndug skepna. Það sem einn man með einum hætti man annar allt öðruvísi. Atburður verður ekki munaður nema í gegnum upprifjun á fyrri upprifjunum. Man maður nokkru sinni neinn hlut óbrenglaðan?
Hér að neðan má lesa nokkura ára pistil eftir Eirík Guðmundsson. Í augum þess sem les í dag er útilokað að sjá pistilinn eins og honum var lýst í nýlegu uppleggi, sem gagnrýnislausum upplestri á grein eftir Guðberg Bergsson. Vitnað er í greinina og margir höfundar eru nefndir. Ekki er hægt að komast hjá því að vitna beint í grein Guðbergs ef maður á annað borð ætlar að fjalla faglega og dylgjulaust um þau mál sem þarna er fjallað um.
Grein Guðbergs er fordæmd rækilega: „… hann skrifar hræðilegan pistil“, „alveg voðalegt“, „komið fram af hengifluginu“. Fortakslausara verður það tæpast.““
Hermann segir að Hallgrími hafi misminnt og það sé ekki sagt honum til hnjóðs. Hann segir enn fremur:
„Opnum skrifum er hægt að vera sammála eða ósammála. Út á það ganga málefnalegar umræður. Ég veit ekki hversu sammála ég er pistli Eiríks en svo mikið veit ég að sjálfur fékk ég að komast upp með að slátra fyrirlestri eftir Guðberg Bergsson allharkalega í Víðsjá svo snemma sem árið 2005, ef minnið ekki svíkur. Ég stórefa að það hafi glatt Guðberg.
Hitt getur líka vel verið að pistill Eiríks hafi orkað særandi á Hallgrím. Mér skilst að Eiríkur hafi beðið hann afsökunar fyrir sex árum. Ekki veit ég hvað hægt er að gera ef afsökunarbeiðnir eru ekki teknar gildar. Biðjast aftur afsökunar og í þetta sinn á pistli sem er misminni? Skrá sig út úr tilverunni?
Vissulega er dansað á línunni í pistlinum. Það má. Fleiri gera það en Eiríkur.“
Pistilinn umdeilda eftir Eirík Guðmundsson má lesa hér og geta lesendur þá sjálfir dæmt um hann.