Húsfélagið að Efstasundi 100 í Reykjavík kærði húsfélagsformanninn til lögreglu fyrir fjárdrátt. Lögreglustjórinn og héraðssaksóknari vísuðu málinu frá en þá fór húsfélagið í einkamál við formanninn. Dómur í því var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, 18. maí.
Húsfélagsformaðurinn fráfarandi er fertug kona. Hún ber erlent nafn en er með íslenska kennitölu. Í þjóðskrá er hún skráð til heimilis í útlöndum.
Konunni var stefnt til að endurgreiða húsfélaginu rúmlega þrjár milljónir króna sem hún hafði millifært af reikningum húsfélagsins yfir á eigin reikning. Samkvæmt hennar skiningi voru þetta laun fyrir þjónustu hennar sem formaður en hún rifti þjónustusamingum við húsfélagsþjónustufyrirtæki.
Konan fékk munnlegt samþykki við þessu hjá íbúum í tveimur íbúðum í húsinu en hún bar ákvörðunina ekki upp á húsfundi.
Það var niðurstaða héraðsdóms að ganga að miklu leyti að kröfum húsfélagsins. Konan var dæmd til að endurgreiða húsfélaginu tæplega 2,9 milljónir króna. Jafnframt þarf hún að greiða 950.000 krónur í málskostnað.