„Ég held að Diljá þurfi að hafa hraðar hendur áður en ungdómur þessa lands áttar sig á að það er ekkert sem bannar þeim að skutla sér fram af svölum háhýsa. Það væri bannað ef það væri ekki í lagi og normal að gera,“ skrifar viðskiptafræðingurinn Haukur Viðar Alfreðsson í pistli á Vísi.
Haukur vísar til pistils sem Dilja Mist Einarsdóttir, hæstaréttarlögmaður og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, birti fyrir helgi. Diljá lætur að því liggja í pistli sínum að með því að afnema refsingu við vörslu og neyslu ólögmætra vímuefna sé verið að senda þau skilaboð að slík neysla sé í lagi.
Þessu er Haukur ósammála.
„Ég hef löngum velt fyrir mér að byrja vera ofboðslega dónalegur við alla sem ég hitti. Láta fólk heyra það ef það þvælist fyrir mér eða bara ef ég get fundið einhvern höggstað á því. Jafnvel að fara sjálfur að halda fram hjá og hvetja aðra til þess.
Það er nefnilega allt í lagi að gera alla hluti sem eru ekki ólöglegir, við vitum það öll. Allt sem ríkið setur ekki sektir og refsingar á er það beinlínis að mæla með og gúddera.“
Haukur segir að í samræmi við ummæli sín þurfi Diljá að hafa hraðar hendur og banna allt það sem ekki sé í lagi, því ellegar sé verið að senda þau skilaboð að slíkt sé heimilt.
„Ég held að Diljá þurfi að hafa hraðar hendur áður en ungdómur þessa lands áttar sig á að það er ekkert sem bannar þeim að skutla sér fram af svölum háhýsa. Það væri bannað ef það væri ekki í lagi og normal að gera. Svo það er vissara að fara sekta fyrir slíkt áður en við missum heilu árgangana.“
Haukur telur refsingar ekki leysa nokkurn vanda hvað við kemur neyslu vímuefna. Tilgangur refsinganna sé þvert á móti öfugsnúinn – hann refsi þeim sem ekki eru að skaða neinn nema sjálft sig og þar að auki taki þeir sjálfsákvörðunarvald frá einstaklingnum. Sem sé undarlegt fyrir Diljá þar sem hún er í framboði hjá flokk sem siglir undir flaggi frjálslyndis.
„Tilgangur slíkra refsinga er líka svo öfugsnúinn. Hann refsar eingöngu þeim sem er í besta falli að njóta lífsins á þann hátt sem hann kýs og í versta falli að skaða sjálfan sig. Það er gerólíkt öðrum brotum þar sem viðkomandi brýtur á öðrum.
Refsing fyrir vörslu neysluskammta vímuefna þjónar aðeins þeim tilgangi að auka á neyð þeirra sem eru háðir vímuefnum og að draga úr ákvörðunarrétti fullorðins fólks yfir eigin lífi (sem er kaldhæðnislegt komandi frá Sjálfstæðisflokknum).
Fyrir utan hvað það er vita gagnslaust að refsa fyrir vörslu slíkra efna, annars værum við búin að ná tökum á neyslunni en ekki að sjá stigmögnun neyslu yfir áratugalangt skeið samhliða bannstefnunni.“
Haukir segir að flestir vilji þeim er glími við fíkn vel og vilji forða öðrum undan viðjum fíknarinnar. En til þess að slíkt sé hægt þurfi að horfast í augu við raunveruleikann. Bannstefnann virki ekki og framtíðin liggi frekar í skaðaminnkun og persónulegu frelsi.
„Við viljum öll þeim sem eiga við fíknivanda vel og við viljum forða öðrum frá að þróa með sér fíknivanda. En það er ekki nóg að vilja vel heldur þurfum við að vera raunsæ. Við þurfum af skaðaminnkunar, persónufrelsis og efnahagslegum ástæðum að hverfa frá bannstefnunni.“