Síbrotamaðurinn Baldur Kolbeinsson var síðastliðinn miðvikudag sakfelldur fyrir Héraðsdómi Suðurlands fyrir nokkur brot. Hann var meðal annars ákærður fyrir að hafa í fangelsinu á Litla Hrauni kastað hraðsuðukatli í fjóra fangaverði með þeim afleiðingum að einn fangavarðanna fékk ketilinn í höfuðið og hlaut hann meiðsli af.
Hann var ennfremur sakaður um hótanir um líkamsmeiðingar við lækni á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og að hafa hrækt á fangaverði og lögreglumenn.
Baldur á langan afbrotaferil að baki og hefur setið meira og minna í fangelsi frá 17 ára aldri. Árið 2018 var hann sakfelldur fyrir að hafa lúbarið hælisleitanda á Litla Hrauni í félagi við annan mann. Enn fremur hefur hann verið dæmdur fyrir að maka saur í munn samfanga og bíta stykki úr vör manns.
Það var virt Baldri til refsilækkunar að meðferðin á máli hans hefur dregist mjög lengi en afbrotin voru framin í desember árið 2019. Í dómnum segir að mikil breyting hafi orðið á högum Baldurs og má skilja það svo að hann hafi bætt ráð sitt. Ekki er þó greint nánar frá því.
Baldur var dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir þessi afbrot og til að greiða sakarkostnað upp á 320.000 krónur.