fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fréttir

Sauð upp úr á Íslandsmóti: „Finnst þér gaman að vinna svona, aumingi?“

Björn Þorfinnsson
Mánudaginn 17. maí 2021 12:11

Það fauk í Guðjón Heiðar þegar dæmt var tap á hann í viðureign gegn Róberti Lagerman

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið gekk á í síðustu umferð Íslandsmót skákfélaga þegar sögulegri keppni lauk um helgina. Mótið tók rúma 600 daga en það hófst um haustið 2019. Ekki tókst að klára mótið vorið 2020 sökum kórónuveirufaraldursins og því leið rúmt ár þar til þráðurinn var tekinn upp að nýju.

Mótið var afar spennandi lengst af en svo fór að lokum að a-sveit Víkingaklúbbsins var með talsvert forskot fyrir síðustu umferðina á tvö önnur lið, Skákfélag Selfoss og nágrennis og Skákfélag Hugins.

Enn var möguleiki á sviptingum því Víkingar mættu liði Hugsins á meðan Selfyssingar mættu b-liði Víkingaklúbbsins. Stórsigrar Hugins og Selfoss hefðu því getað tryggt öðru hvoru liðinu Íslandsmeistaratitilinn.

Þegar aðeins var liðið á umferðina braust út hávaðarifrildi í viðureign Selfyssingsins og FIDE-meistarans Róberts Lagerman gegn Guðjóni Heiðari Valgarðssyni, liðsmanns b-sveitar Víkingaklúbbsins. Ástæðan var sú að Guðjón hafði gleymt símanum sínum í buxnavasanum og þegar hann pípti gekk Róbert hart fram við að krefjast vinnings í skákinni.

Í nútíma keppnisskák er harðbannað að koma með hverskyns raftæki inn á skákstað enda er mikil hætta á svindli. Hægt er að fá aðgang að öflugum skáktölvum í snjallsímum og mýmörg dæmi hafa átt sér stað utan úr heimi þar sem skákmenn leita ráða hjá tölvum í miðri skák. Þau atvik hafa gert það að verkum að í dag er dæmt tap á þá sem að verða uppvísir af því að vera með síma eða önnur raftæki á sér við skákborðið.

Guðjón Heiðar var þó ekki með neinar slíkar annarlegar hvatir. Á síðustu öld var hann einn efnilegasti skákmaður landsins en svo hætti hann alfarið að tefla og fór að sinna öðrum hugðarefnum, meðal annars tónlist og því að benda almenningi á að öll tilvist okkar er í raun einhverskonar blekking. Á dögunum gaf hann út lagið Rain undir listamannsheitinu Projekt.

Þegar fjöllistamaðurinn var upp á sitt besta í skákinni voru snjallsímar ekki til og því gleymdi hann að framvísa símanum við byrjun skákarinnar.

 

Jóhann Hjartarson fór fyrir Íslandsmeisturum Víkingaklúbbsins

Til að gera dramatíkina enn meiri þá var Guðjón Heiðar með mun betri stöðu gegn Róberti þegar atvikið átti sér stað. Róbert hefur um áratugabil verið í hópi sterkustu skákmanna Íslands og því má ætla að spennustig Guðjóns hafi verið afar hátt þegar hann eygði góða von á höfuðleðri Róberts.

Þegar sími Guðjóns Heiðars pípti og Róbert krafðist vinnings fóru þeir félagar að rífast hátt í skáksalnum. Vakti það talsverða eftirtekt annarra á vettvangi enda skáksalur iðulega afar rólegur staður þar sem oft á tíðum má heyra saumnál detta.

Þegar ljóst var að skákstjóri mótsins, Kristján Örn Elíassonar, ætlaði að taka undir kröfu Róberts þá hvæsti Guðjón á Róbert. „Finnst þér gaman að vinna svona, aumingi?“ og rauk á dyr. Þegar annar keppandi sussaði þá á Guðjón sneri hann sér við og hreytti í viðkomandi. „Þegiðu“ og sýndi viðkomandi fokkjúmerkið . Síðan gekk tónlistar- og samsæriskenningasmiðurinn yfir á Billiardbarinn og fékk sér ostborgara.

Róberti var þó hvergi brugðið eftir rifrildið og í samtali við fréttaritara vísaði hann því alfarið á bug að hann væri aumingi. „Ég þekki bara reglurnar betur,“ sagði Róbert, sem státar af titli alþjóðlegs skákdómara.

Talsverður kliður gekk um skáksal þar sem talið var að Guðjón hefði sagt Kristjáni Erni skákdómara að „fokka“ sér. Töldu menn að þar væri um ákveðin tvíverknað að ræða því að skákdómarinn hefur verið duglegur að fokka sér sjálfur, að minnsta kosti að mati góðborgara sem mega ekki vamm sitt vita.

Þannig var Kristján dæmdur í skilorðsbundið tveggja mánaða fangelsi í Héraðsdómi á dögunum fyrir að snúa niður öryggisvörð Landsbankans. Taldi skákdómarinn það illa dæmt og áfrýjaði málinu til Landsréttar. Þar var dómurinn staðfestur sem Kristján Örn taldi enn verr dæmt. Er málinu hvergi nærri lokið af hans hálfu.

Þegar að Guðjón Heiðar hafði sporðrennt ostborgaranum var heimurinn loks orðinn bjartari og betri. Sneri hann því aftur á skákstað og leitaði sátta við Róbert sem tók þeim umleitunum vel.

Að endingu lauk Íslandsmótinu með því að Víkingaklúbburinn hreppti Íslandsmeistaratitilinn með 53 vinninga. Silfrið hluti Selfyssingar með 48 vinninga og Skákfélagið Huginn hreppti bronsið með 46,5 vinninga.

Nánar má lesa um mótið í uppgjörsfrétt á skak.is.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi