Það var nóg að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt en samtals voru yfir 100 mál skráð í dagbók lögreglu.
Rétt fyrir miðnætti var tilkynnt um líkamsárás í Grafarholti en þegar lögregla mætti á svæðið voru árásarmennirnir farnir. Árásarþoli var með skurð á hendi og fékk aðhlynningu frá áhöfn sjúkrabifreiðar.
Lögreglan var með umferðarpóst á Bústaðavegi þar sem kannað var með ástand ökumanna. Við þetta skapaðist mikil umferðarteppa en einn er grunaður um ölvun við akstur og einn ökumaður reyndist vera réttindalaus.
Klukkan tæplega hálf þrjú var bifreið stoppuð á Reykjanesbrautinni þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann gaf sýni sem reyndist vera neikvætt en tveir farþegar voru í bifreiðinni sem ökumaðurinn kvaðst vera að skutla til Hafnarfjarðar. Ökumaðurinn er grunaður um að stunda leiguakstur án leyfis og sölu áfengis en farangursgeymsla bifreiðarinnar var full af áfengi sem var haldlagt fyrir rannsókn málsins.