Þrír menn rændu verslun í miðbæ Reykjavíkur í dag. Þegar lögreglu bar að vettvangi voru þeir farnir en fundust stuttu síðar þegar tilkynnt var um þjófnað á rafmagnsvespu. Þegar lögregla fann rafmagnsvespuþjófana kom í ljós að um var að ræða sömu mennina. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Rétt fyrir klukkan hálf sex í morgun var lögreglu tilkynnt um mann sofandi í bifreið. Hann svaf þar ölvunarsvefni og vaknaði grunur lögreglu að hann hafi ekið bifreiðinni undir áhrifum. Hann var handtekinn í þágu rannsóknar málsins og fundust meint fíkniefni í fórum hans.
Þá var lögreglu tilkynnt um fólk að grilla á einnotagrilli á útisvæði í Kópavogi. Lögreglan mætti á staðinn og ræddi við aðila.