Örlygur Hnefill Örlygsson, eigandi Könnunarsögusafnsins á Húsavík, segir í færslu á Facebook-síðu sinni að hann hafi verið að taka á móti fyrstu gestum Húsavíkur sem komu eftir að hafa fallið fyrir bænum í myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga.
Bærinn lék stórt hlutverk í myndinni en aðalpersónur myndarinnar, Lars og Sigrid, áttu að vera frá Húsavík og heitir vinsælasta lag myndarinnar Husavik. Það var tilnefnt til Óskarsverðlauna á dögunum en vann verðlaunin því miður ekki.
Landkynningin í myndinni hefur vonandi virkað og segir Örlygur að ferðamennirnir verði líklegast ekki þeir síðustu til að heimsækja bæinn vegna myndarinnar.